Tindastóll og Hvöt með sameiginlegt lið næsta sumar

Knattspyrnudeildir Tindastóls á Sauðárkróki og Hvatar á Blönduósi hafa undirritað viljayfirlýsingu um aukið samstarf deildanna.  Þessi yfirlýsing felur m.a. í sér að félögin senda eitt sameinað lið til keppni í m.fl.karla.  Viðræður hafa staðið yfir að undanförnu og niðurstaða beggja er sú að aukið samstarf geti ekki leitt til annars en jákvæðra hluta.  

Það skal skýrt tekið fram að ekki er verið að leggja félögin niður. Tindastóll og Hvöt starfa áfram og vonandi munu knattspyrnudeildirnar verða enn öflugri.

Bæði þessi félög hefðu leikið í 2.deild karla á komandi leiktíð.  Með þessari ákvörðun mun hinsvegar eitt öflugra lið undir nafni Tindastóls/Hvatar taka þar sæti.  Einnig mun sameiginlegur 2.fl. þessara félaga taka þátt í mótum á vegum KSÍ auk annarra flokka.  Yngstu flokkar félaganna keppa áfram undir merkjum sinna félaga.

Þessi ákvörðun var ekki auðveld og mikil tilfinningasemi einkenndi viðræðurnar.   Hinsvegar teljum við að hún sé skynsamleg.  Hún ætti einnig að geta orðið öðrum til eftirbreytni í auknu samstarfi á svæðinu. 

Það er engin launung að aðstæður í samfélaginu hafa breyst á síðustu árum. Fjármagn til íþróttahreyfingarinnar hefur minnkað og æ erfiðara er að reka félög, jafnt á þessu svæði sem öðrum.  Knattspyrnudeildir beggja standa þó vel að vígi fjárhagslega og eru skuldlausar með öllu.  Þetta samstarf mun því gefa mikla möguleika þar sem meira fjármagn verður til ráðstöfunar hjá hvoru félagi til annarra hluta.  Það er von okkar að iðkendur fái að njóta þess strax á næsta ári.

Framundan er vinna við að útbúa samstarfssamning sem verður formlega undirritaður innan tíðar.  Samningurinn mun fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi að styrkja knattspyrnuna á svæðinu, efla barna- og unglingastarf og gera alla umgjörð í kringum knattspyrnudeildirnar enn betri. 

Fh. knattspyrnudeilda Tindastóls og Hvatar

Ómar Bragi Stefánsson,  formaður knattspyrnudeildar Tindastóls

Hilmar Þór Hilmarsson, formaður knattspyrnudeildar Hvatar

Fleiri fréttir