Tindastóll sækir Hauka heim

Tindastóll leikur annan leik sinn í Iceland Express deildinni í kvöld þegar þeir heimsækja Hauka. Ólíkt höfðust þau að liðin í fyrstu umferðinni, þar sem Haukarnir sóttu útisigur á Hamarsmönnum í Hveragerði á meðan Tindastóll laut í parket í Jakanum á Ísafirði.

Leikurinn hefst kl. 19.15 og hægt verður að fylgjast með honum í beinni tölfræðiútsendingu á netinu.

Haukarnir eru nýliðar í efstu deild, en þeir unnu úrslitakeppni 1. deildar á síðasta tímabili og tryggðu sér þar með sæti meðal þeirra bestu ásamt KFÍ sem vann deildina örugglega.

Í liði Hauka má nefna Semaj Inge, sem lék með KR-ingum framan af síðasta tímabili, en gekk til liðs við Hauka þegar Pavel Ermolinski kom til KR-inga. Átti hann stóran þátt í því að Haukarnir komust upp.

Í fyrsta leik Haukanna gegn Hamri skoraði Inge 22 stig, tók 9 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Annar erlendur leikmaður er í liði Haukanna, sá heitir Gerald Robinson og þykir fjölhæfur. Hann var með tröllatvennu í leiknum gegn Hamri, þar sem hann skoraði 29 stig og tók 14 fráköst.

Sævar Haraldsson er öflugur leikmaður og reyndur, en hann gaf m.a. 9 stoðsendingar í leiknum gegn Hamri.

Þess má geta að Matthías Rúnarsson, sem er okkur Tindstælingum að góðu kunnur, er í liði Haukanna í vetur.

Það væri afar gott ef okkar menn sæktu sigur í Hafnarfjörðinn, en til þess verða þeir að leika betur en á móti KFÍ á Ísafirði á fimmtudaginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir