Tindastólsmenn íhuga aðgerðir í leikmannamálum

Mikil óvissa ríkir nú í rekstri margra íþróttafélaga og sér í lagi þeirra sem hafa erlent vinnuafl á sínum snærum. Gríðarleg veiking krónunnar hefur hækkað laun leikmanna upp úr öllu valdi og vegna efnahagsástandsins er nær útilokað að fá aukna styrki frá fyrirtækjum sem mörg hver þurfa á hverri einustu krónu að halda í sínum rekstri. Það er því eðlilegt að forráðamenn íþróttaliða setjist niður og skoði málin í fullri alvöru.

 Að sögn Kristins Friðrikssonar þjálfara körfuknattleiksliðs Tindastóls í Iceland-Express deildinni, hefur Tindastóll verið að íhuga ýmis mál varðandi erlenda leikmenn nú á haustdögum. – Við höfum velt ýmsu fyrir okkur til að lækka leikmannakostnað fyrir þetta tímabil, segir Kristinn. Hann telur að við óbreyttar aðstæður verði það gríðarlega erfitt að hafa marga erlenda leikmenn á samningi, en Tindastóll er núna með þrjá slíka leikmenn sem allir fá uppgerð sín laun í erlendri mynt. – ÍR-ingar sögðu sínum leikmönnum upp af illri nauðsyn, þannig að þeir hafa líklega verið að gera rétt með því. Ég tel að áhrif þess gjörnings verði fyrst og fremst að finna hjá ÍR, en ég er ekkert viss um að nein holskefla ríði yfir liðin í deildinni, segir Kristinn en bætir við að ÍR-ingar séu þrátt fyrir þetta með gott lið sem muni verða skeinuhætt í vetur.

 

Unglingaráð körfuknattleiksdeildarinnar réð erlendan yfirþjálfara til starfa í sumar og fær hann uppgert í Evrum. Að sögn forráðamanna þess er verið að skoða þessi mál frá öllum hliðum en launakostnaður viðkomandi þjálfara hefur hækkað um 40% frá því að samningar voru undirritaðir.
Í gærkvöldi ákvað stjórn körfuknattleiksdeildar Snæfells að segja öllum erlendu leikmönnum sínum upp auk þjálfarans sem er Makedónskur. Boðað hefur verið til íbúafundar í Stykkishólmi í kvöld vegna þessa.

Fleiri fréttir