Tindastólssigur í fyrsta fótboltaleik ársins

Æfa í slyddu, æfa í roki, æfa í regni, æfa í sól, já, upp á topp með Tindastól! Svona var veðrið á Króknum fyrir rétt rúmri viku þegar stelpurnar voru að æfa. Það er oft mikið á sig lagt fyrir leikinn góða. MYND: ÓAB
Æfa í slyddu, æfa í roki, æfa í regni, æfa í sól, já, upp á topp með Tindastól! Svona var veðrið á Króknum fyrir rétt rúmri viku þegar stelpurnar voru að æfa. Það er oft mikið á sig lagt fyrir leikinn góða. MYND: ÓAB

Það er ekki nóg með að körfuboltinn hafi farið í gang í vikunni því Pepsi Max lið Tindastóls (stelpurnar) í fótbolta spilaði í gærkvöldi sinn fyrsta leik á árinu. Leikið var í Boganum á Akureyri gegn b-liði Þórs/KA en þetta var opnunarleikur Kjarnafæðismótsins. Stólastúlkur gerðu tvö mörk um miðjan fyrri hálfleik og þrátt fyrir mýmög tækifæri tókst ekki að bæta við fleiri mörkum.

Jackie Altschuld gerði fyrsta mark leiksins með skalla á 18. mínútu en Maður ársins 2020 á Norðurlandi vestra, Bryndís Rut Haraldsdóttir, bætti við síðara marki Tindastóls á 25. mínútu.

Samkvæmt frétt á Fótbolti.net reyndist Sara Mjöll Jóhannesdóttir, markvörður Akureyringa, Tindastólsstúlkum erfið og varði ítrekað úr góðum færum. Lið Tindastóls var mun sterkara liðið og að mestu skipað heimastúlkum. Bæði Jackie og Murielle Tiernan eru komnar á Krókinn og tóku þátt í leiknum en Mur fór af velli í hálfleik. Markvörðurinn, Amber Michel, er síðan væntanleg þegar líður að vori.

Ásamt liðum Tindastóls og Þórs/KA 2 taka Þór/KA 1, Fjarðab/Höttur/Leiknir, Völsungur og Hamrarnir þátt í Kjarnafæðismótinu. Næsti leikur er á morgun þegar Þór/KA mætir F/H/L.

Leikskýrsla á vef KSÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir