Tindastólsstrákarnir tóku stigin á Álftanesi

Isaac Owusu gerði fyrsta mark Stólanna í leiknum. Hér er hann í leik gegn Kormáki/Hvöt. MYND: ÓAB
Isaac Owusu gerði fyrsta mark Stólanna í leiknum. Hér er hann í leik gegn Kormáki/Hvöt. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls og Álftaness mættust á Bessastaðavelli í fjórðu umferð 3. deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Eftir hálf dapurlegt tap gegn liði KFG á sunnudag þurftu strákarnnir að sýna hvar Davíð keypti ölið og það gerðu þeir. Tóku stigin þrjú sem í boði voru með sér norður eftir 1-2 sigur.

Isaac Owusu Afriyie gerði sitt fyrsta mark fyrir lið Tindastóls þegar hann skoraði á 39. mínútu og staðan 0-1 í hálfleik. Gunnar Orri Aðalsteinsson jafnaði metin þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik en á 61. mínútu gerði Luke Rae sigurmark Tindastóls.

Það er gaman að segja frá því að í tísti frá fótboltadoktornum Hjörvari Hafliða mátti lesa að Luke hefði fagnað markinu með því að rífa sig úr treyjunni og kyssa bol sem hann var í innanundir með mynd af stjörnu Króksaranum Auðunni Blöndal sem varð fertugur í gær. „Kiddi Blöndal faðir Auðuns var á hliðarlínunni og brotnaði niður,“ segir einnig í tísti Hjörvars.

Næstkomandi sunnudag kemur lið Sindra á Krókinn, alla leið frá Höfn í Hornafirði, og mætir liði Tindastóls í 5. umferð 3. deildar. Leikurinn hefst kl. 14:00. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir