Tinna Haraldsdóttir meistaranemi LbhÍ fær viðurkenningu Skipulagsfræðingafélags Íslands
Skipulagsverðlaunin 2010 voru veitt í síðustu viku á Alþjóðlega skipulagsdeginum og veitir Skipulagsfræðingafélag Íslands verðlaunin í samvinnu við Skipulagsstofnun annað hvert ár. Ungur Skagfirðingur fékk sérstaka viðurkenningu.
Markmið verðlaunanna er að hvetja til umræðu um skipulagsmál og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulags á hverjum tíma. Ísafjarðarbær fékk skipulagsverðlaunin en meistaranemi við LbhÍ fékk viðurkenningu við þetta tækifæri.
Ísafjarðarbær fékk skipulagsverðlaunin 2010 fyrir Aðalskipulag Ísafjarðarðbæjar 2008-2020 en nefndin ákvað líka að veita MS ritgerð Tinnu Haraldsdóttur viðurkenningu. Heiti ritgerðar: „Samskipti, völd og skipulag. Hvernig fer það saman? Greining á aðkomu almennings að skipulagsferlinu á vestanverðu Kársnesi, Kópavogi.“ Tinna útskrifaðist sl. vor.
Á meðfylgjandi mynd er Tinna með þeim dr. Sigríði Kristjánsdóttur, sem er lektor við LbhÍ og verkefnisstjóri MS náms í skipulagsfræði LbhÍ en til hægri er Stefán Thors skipulagsstjóri ríkisins og meðleiðbeinandi.
Ritgerð Tinnu er hluti lokaprófs frá Umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Tinna fékk viðurkenninguna fyrir framlag til umræðu um umbætur í skipulagsferlinu.
Á vef Landbúnaðarháskóla Íslands segir: „Á undanförnum áratug hafa átök í skipulagsmálum færst í vöxt. Samskipti íbúa, hagsmunaaðila og yfirvalda hafa á stundum reynst erfið. Takmörkuð umræða hefur farið fram um orsakir þessa og skort hefur grundvöll fyrir gagnlegar rökræður á þessu sviði. Ritgerð Tinnu Haraldsdóttur er tilraun til að greina þetta vandamál út frá gefnu tilviki og bryddar hún upp á nýjum leiðum til að forðast átök.
Ritgerðin er prýðisgott innlegg í umræðu um íbúalýðræði“, segir að lokum.
Tinna er fædd og uppalin á Sauðárkróki dóttir Haraldar Arasonar og Evu Sigurðardóttur.