Tökum til í rekstri hins opinbera – báknið burt.

Nú þarf að skera niður útgjöld hins opinbera. Sú staða sem íslenska þjóðin er í leyfir ekki óráðsíu og óþarfa útgjöld í ríkisfjármálunum. Lykilatriðið í því sambandi er forgangsröðun. Það er með ólíkindum að það fyrsta sem mönnum dettur í hug þegar taka á til hjá hinu opinbera sé annars vegar að skerða þjónustu við íbúana, sér í lagi á landsbyggðinni og hins vegar að hækka skatta.

 

Við erum bara 300.000 og nú þurfa menn að horfa sér nær, einfalda þarf stjórnsýsluna og yfirbyggingu hins opinbera. Ríkisbáknið verður að skera fituna utan af sjálfu sér áður en niðurskurðurinn bitnar á íbúunum.

 

Það má ekki gerast að ráðist verði í blindan niðurskurð, heldur þarf að forgangsraða verkefnum með tilliti til þeirra markmiða sem að er stefnt. Nauðsynlegt er að gera heildstæða úttekt á starfandi nefndum á vegum hins opinbera. Fara verður yfir starfsemi viðkomandi nefnda og kanna hvort að markmiðum sem farið var af stað með hafi verið náð. Það gefur augaleið ef viðkomandi nefnd er ekki starfandi skal tafarlaust hætta öllum nefndargreiðslum. Jafnframt þarf að setja nefndum á vegum hins opinbera tímaramma t.d. 12 – 24 mánuði að hámarki. Hafi starfandi nefndir ekki náð tilskildum markmiðum á þeim tíma ber nefndarmönnum að útskýra hvað veldur, en að öðrum kosti skal leggja viðkomandi nefnd niður.

 

Taka þarf meðvitað á pólitískum stöðuveitingum hjá hinu opinbera. Faglegar ráðningar eiga að vera meginreglan, þó vissulega séu stöður þar sem eðlilegt er að stöðuveiting sé á pólitískum forsendum, t.d. aðstoðarmenn ráðherra. Þó verður að gera greinarmun á þessu tvennu, og setja þá reglu að þeir aðilar sem ráðnir eru í stöður á pólitískum forsendum fylgi þeim valdhöfum sem réðu þá til starfa. Þannig að t.d. þegar verða stjórnarskipti þá fara þeir einstaklingar út með lágmarks tilkostnaði fyrir skattgreiðendur. Þeir sem ráðnir eru á faglegum sjónarmiðum munu aftur á móti njóta réttarverndar sem opinberir starfsmenn. Með því móti verður komist hjá óvægnum og ómálefnalegum pólitískum hreinsunaraðgerðum eins og við höfum orðið vitni að í valdatíð núverandi minnihlutastjórnar.

 

Garðar Víðir Gunnarsson

Frambjóðandi í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir