Tólf manns bjargað af Holtavörðuheiði

Myndin er af Facebooksíðu Björgunarsveitarinnar Húna og var tekin í desember.
Myndin er af Facebooksíðu Björgunarsveitarinnar Húna og var tekin í desember.

Björgunarsveitin Húnar fékk útkall undir hádegið í dag vegna fólks sem var í hrakningum á Holtavörðuheiði. Á Facebooksíðu Húna segir að farið hafi verið á tveimur bílum frá Húnum og einnig hafi félagar úr Björgunarsveitinni Heiðar komið á móti neðan úr Borgarfirði. Vel gekk að aðstoða fólkið og koma því af heiðinni en þarna var um að ræða tólf manns á fjórum bílum. Vindhraði á heiðinni nálgaðist 40 m/sek í hviðum um það leyti sem björgunarsveitarmenn komu til baka þaðan og er heiðin lokuð og ekkert ferðaveður þar þó eitthvað sé það farið að ganga niður.

Brattabrekka og Laxárdalsheiði eru opnar þurfi menn nauðsynlega að komast suður fyrir heiðar. Á Norðurlandi eru vegir mikið til auðir á láglendi en krapi og éljagangur er á Þverárfjalli og Vatnsskarði. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Víða er allhvasst.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir