Torskilin bæjarnöfn - Ípishóll eða Íbishóll í Seyluhreppi.

Mynd: Ípishóll 20. september 1999. Í baksýn eru Vesturfjöllin ofan Sæmundarhlíðar. Konungsgilið til vinstri á mynd. Mynd ú II. bindi Byggðasögu Skagahjarðar, bls. 481.
Mynd: Ípishóll 20. september 1999. Í baksýn eru Vesturfjöllin ofan Sæmundarhlíðar. Konungsgilið til vinstri á mynd. Mynd ú II. bindi Byggðasögu Skagahjarðar, bls. 481.

Ekki hefi jeg getað fundið eldri heimildir fyrir nafninu en frá 15. öld. En telja má víst, að jörð þessi sje bygð nokkrum öldum fyr. Í jarðaskrá Reynistaðaklausturs árið 1446 (Dipl. Ísl. IV., bls. 701) er nafnið  ritað Ypershol. En tæplega verður mikið bygt á þeim rithætti, því að jarðaskráin er mjög norskuskotin og nöfnin afbökuð, t.d. Rögladal fyrir Rugludal, Rökerhole fyrir Reykjarhóli, Ravn fyrir Hraun o.s.frv. Einstöku nöfn eru rétt rituð.

Í Sigurðarregistri – elzta hluta – 1525 stendur: Ipesholl (Dipl. IX., bls. 321. Í registrinu hefir blaðsíðutalan misprentast 324, á að vera 321) og á öðrum stað, ritað: Ipisshol (Dipl. III. b.). Jarðabækurnar hafa Ípishóll (Ný jarðabók, bls. 107 og Johnsens Jarðatal, bls. 258). Af þessu er þá auðsætt, að nafnið hefur verið ritað með p, en ýmsir skrifa það með b. Í framburði er það ýmist með p- eða b-hljóði. Nafnið hefur reynst mörgum ramflókin ráðgáta og ýmsir spreytt sig á að skýra það. Heyrt hefir jeg, að mag. Guðmundur Þorláksson hafi gizkað á, að bærinn hafi upprunalega heitið Íbúðshóll, en rök fyrir þeirri tilgátu voru víst á reiki, enda get jeg fullyrt, að hvergi eru til öruggar heimildir fyrir því.

Finnur prófessor Jónsson setur enga sennilega skýringu fram um nafnið, nema það kunni að vera leitt af mannsnafni: Ípir. En það þykir mjer afarólíklegt, þareð það þekkist hvergi að fornu eða nýju (sjá Safn t.s. Ísl. IV., bls. 535). Mjer þykir sennilegast, að bærinn hafi upphaflega heitið Íbeitishóll. Þegar vjer athugum nafnið nánar, getur breytingin verið eðlileg.

Eins og kunnugt er, hverfur i mjög fljótt í framburði úr orðum í eignarfalli eint. á undan s, t.d.

knjeis verður knjes, trjeis verður trjes, reipis v. reips, óðalis v. óðals (sbr. Finnur Jónsson: Málfræði, bls. 56) o.s.frv. Samkvæmt málsreglum hlýtur Íbeitis- að verða fljótt Íbeits-. Jafnframt verður sú breyting á orðinu, að s tillíkir fram fyrir sig, svo að t hverfur og framburðarmyndin Íbeiss- kemur í ljós; á þetta bendir rithátturinn Ipiss- og Ipes-, sbr. áður. Þegar orðið hafði fengið þessa mynd, hættu menn að skilja nafnið, og þá breyttist það enn meir, svo að ei gat auðveldlega breyzt í i, enda skiftist e og i hljóð á í framburði, sbr. -ligur

-legur, steig (nafnorð) stig, -beits -bits. Auk þessa hlaut b að herðast í p, samkvæmt málslögum, t.d. b í latneska orðinu sebum verður p, í sápa (F. Jónsson: Málfræði, bls. 39. Sbr. Verners lögmál), lat. orðið scribere verður skript, apal- svarar til abild- (Finnur Jónsson: Orðakver, bls. l l) og Jakob verður Jakop og þar fram eftir götunum. Á þennan hátt gat því afbökunin Ipiss- eða Ipes- myndast. En auk þessa styður hinn mismunandi nútíðarframburður og ritháttur Ibiss- tilgátu mína.

Orðið „íbeit“ er jafnrjett myndað sem ítak, ítala, íferð, íseta, sem mikið eru notuð fyrr á öldum (sbr. Dipl. Ísl., öll bindin). Og „beit í“ landi er afaroft þannig orðað í fornbrjefum (Dipl. Ísl., öll bindin, sjá undir orðið „beit“). Ennfremur styrkir örnefnið Beitines við Mælifellsá þessa skoðun (Dipl. Ísl., V., bls. 707). Sennilegast er, að hóllinn hafi verið kallaður upphaflega Íbeitshóll og bærinn verið svo samnefndur honum. Enn mætti geta þess til, að nafnið hefði verið íbitshóll (sbr. bithagi), en orðið íbit er ekki eins rjett myndað og íbeit og því tel jeg rjetta nafnið: Íbeitshóll. Loks skal þess getið, að rjetta nafnið Íbeitshóll kemur ágætlega heim við staðháttu og landskosti, því að beitarjörð er þar framúrskarandi góð. Fyrir ofan bæinn - ekki

langt - er stór hóll, og er það gamalla manna mál að sjaldan taki fyrir beit í hólnum í harðindavetrum.

Hvort hóllinn hefir í fyrndinni kallast Íbeitishóll og bærinn dregið nafnið af hólnum, læt jeg ósagt, en vel gæti það hafa verið. Og framvegis ætti að rita Íbeitshóll.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 47. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir