Torskilin bæjarnöfn Páfastaðir á Langholti

Gamli bærinn á Páfastöðum. Sunnan við bæjardyr, vinstra megin,var gestastofan, kölluð Bláastofa af lit sínum. Norðan bæjardyra var dagstofa með steingólfi þar sem smjörbúið starfaði á árunum l90l-1906. Geymsluloft var yfir framhúsinu. Yfir dyrum er skyggni með ágrafinni fjöl með nafni bæjarins PÁFASTAÐIR 1881. Fjölin er enn varðveitt á Páfastöðum. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar, II bindi.
Gamli bærinn á Páfastöðum. Sunnan við bæjardyr, vinstra megin,var gestastofan, kölluð Bláastofa af lit sínum. Norðan bæjardyra var dagstofa með steingólfi þar sem smjörbúið starfaði á árunum l90l-1906. Geymsluloft var yfir framhúsinu. Yfir dyrum er skyggni með ágrafinni fjöl með nafni bæjarins PÁFASTAÐIR 1881. Fjölin er enn varðveitt á Páfastöðum. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar, II bindi.

Þetta nafn finst í stofnskrá Reynistaðarklausturs, sem talin er frá árinu 1295. Er skráin sögð að vera næstelzt af íslenzkum frumbrjefum (Reykholtsmáldagi elzt). Er þetta þá líklega elzta heimildin um Páfastaðanafnið. Meðal þeirra jarða, sem Jörundur biskup Þorsteinsson leggur til klaustursins „á Stað í Reynisnesi“ standa PauastaðirTelja má víst, að nafnið sje misritað í skránni, sem ýms önnur bæjanöfn, því aðeins 20 árum síðar, eða árið 1315, er afnið ritað Pafastaðir í staðfestingarbrjefi Auðuns biskups um stofnun klaustursins (Dipl. Ísl. II. b., bls. 301 og 398). Rúmri öld síðar, eða 1446, í „Reikningi Reynistaðarklausturs“, eru klausturjarðirnar taldar, þar á meðal Pafvestaðir.

Má segja, að nafnið sleppi vel frá afbökun, því flest bæjanöfnin eru mjög brengluð og bjöguð (Dipl. Ísl. IV. b., bls. 701). Tæpum 100 árum eftir, eða 1525, er jörðin talin í Sigurðarregistri, sem aðrar Reyninessklaustursjarðir og einnig þar ritað Pafastaðir (Dipl. Ísl. IX. b., bls. 321). Er því óhætt að fullyrða, að nafnið Páfastaðir sje óafbakað og upprunalegt. Tæplega þarf að taka það fram, að í öllum yngri skjölum og jarðabókum er nafnið eins stafsett. Varla getur það komið til mála, að bærinn sje kendur við Páfa, sem hreint karlmannsnafn. Mjer vitanlega þekkist það hvergi. Aftur á móti þekkist auknefnið páfi.

Í Sturlungasögu er nefndur Þorgils páfi, aðeins einu sinni; og vegna þess, að í þessu efni skiftir þetta miklu, skal jeg greina frásögn sögunnar á þessum stað: Þórólfur Bjarnason, banamaður Kálfs Guttormssonar, reisti bú á Óslandi með ráðum og hjálp Kolbeins unga. Broddi Þorleifsson á Hofi og Álfur Guðmundarson í Gröf gerðust öfundarmenn Þórólfs. Gerðu þeir bandalag með sjér um að drepa Þórólf, Broddi, Álfur og Brandur Kolbeinsson, sem þá bjó á Reynistað. „Fjekk Brandur til tíu menn eða tólf,“ segir Sturlunga (II. b., bls.. 333). Eru þeir allir nafngreindir.

Meðal þeirra eru taldir „Einar auðmaðr í Vík“, Sigurður Þjóðólfsson djákn og Þorgils páfi. Orðalag Sturlungu bendir beinlínis á það að Brandur hefir stefnt þessum tólf til fundar við sig að Stað (í Reynisnesi). (Enginn þessara manna, að undanteknum Einari „auðmanni“, er nefndur annarsstaðar í fornum ritum, mjer vitanlega, en á þessutm stað í Sturlungu). Telja má afar sennilegt, að flestir þessara manna hafi verið af  næstu bæjum við Stað. Sigurður djákn hefir að líkindum verið heimilismaður á Stað, því þar var kirkja, Einar er fenginn frá Vík (í Sæmundarhlíð) sem er skamt frá Reynistað.

Sumir þessara manna hafa sjálfsagt verið frá yztu bæjunum á Langholti, því þangað er álíka leið og að Vík. Og hvað er þá líklegra en að Þorgils páfi hafi verið frá Páfastöðum? Því svo má heita að Páfastaðir sjeu með næstu bæjum við Stað. Og óneitanlega er það athugavert, að eini maðurinn, sem þekkist með þessu auknefni í íslenzkum fornbókmentum, skuli vera nefndur meðal þeirra manna, sem taldir eru, að öllum sterkustu líkum, af næstu bæjum við Páfastaði. Og þessu til frekara stuðnings, má bæta því við, að Páfastaðir eiga sjer hvergi samnefni á landinu. Mjer virðist það vafalítið, að Þorgils páfi hafi átt heima á Páfastöðum og verið þar búandi. Áðurnefndur viðburður gerðist árið 1240.

Og það gæti prýðilega staðist við stofnskrá Reyninessklausturs (sbr. hjer áður), að Páfastaðir væri kendir við Þorgils páfa. Er þá vissa fyrir, að bærinn hefir heitið þessu nafni a.m.k. í byrjun 13. aldar. Vitanlega hefir Þorgils verið vel fullorðinn um 1240. Að líkindum fæst aldrei vissa fyrir, hvort bærinn hafi verið fyrst bygður um 12. öld, eða nafnið breyzt um þær mundir. En vel getur verið, að Þorgils hafi endurbygt bæinn á öðrum stað, en mjög líklegt, að jörðin hafi verið bygð áður, því eftir landskuldarupphæð (fjögur hundruð) hennar árið 1295, er það langstærsta jörðin, sem lögð er til klaustursins. Loks má og benda á það, að gömlum bæjanöfnum hefir verið breytt býsna oft af ásettu ráði. Fáein dæmi skulu talin, víðsvegar á landinu: Geirmundarstaðir í Sæmundarhlíð hjet upphaflega Sæmundarstaðir (sjá Landnámu, bls. 138). Kryddhóll í Skagafirði hjet fyrrum Gegnishóll (sjá hjer um það nafn). Haugar í Mýrarsýslu nefndir að fornu Sigmundarstaðir (Egilss., bls. 75). Marbæli í

Eyjafjarðarsýslu, upprunalega Hanatún (Landnáma, bls. 155). Ormstaðir í Fljótsdalshjeraði, Oddsstaðir í fyrstu? (Sbr. Safn til sögu Íslands II b., bls. 461). Öngulsá á Völlum heitir nú Höfði (Safn II. b., bls. 461). Hrappsgerði inn frá Skeggjastöðum við Lagarfljót hjet að fornu Nollarsstaðir (Safn II. b., bls. 486). Og svona mætti lengi telja, ef vel væri leitað. Að bæjanöfnunum hafi verið breytt stundum fyr á öldum, er því alveg eins eðlilegt eins og einstaka bæjanöfnum hefir verið breytt á síðustu árum. Samkvæmt tilgátu minni verður þá rjettara að rita Páfastaðanafnið með f (en ekki v), í samræmi við auknefnið páfi (páfi er talið, eins og kunnugt er, að vera komið af írska orðinu papa, sem þýðir faðir).

Enn má benda á það, að sje stafsetning í Sturlungu rjett um páfanafnið, hefir bærinn hlotið að fá þetta nafn eftir kristnitökuna og það alllöngu, því tignarheiti „hins heilaga föður“ þektu menn ekki fyrri. Þetta er áherzlu vert. Því hafi bærinn verið bygður fyrir 1200, sem er líklegt, hafa nafnaskiftin orðið á tímabilinu frá 1050-1240. En síðast á því virðist Þorgils páfi búa þar.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 40. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir