Tvær kirkjur lýstar bleikar
Í ár verða Glaumbæjarkirkja og Sauðárkrókskirkja lýstar bleikar á vegum Krabbameinsfélags Skagafjarðar. Þetta er hluti af alþjóðlegu átaki en októbermánuður er helgaður baráttunni gegn á brjóstakrabbameini um allan heim. Nú í október verður lögð áhersla á að selja bleikar slaufur og verður afraksturinn notaður til að ljúka greiðslu á nýju stafrænu röntgentækjunum og öðrum búnaði til brjóstakrabbameinsleitar fyrir Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands.
Markmiðið er að selja 40 þúsund slaufur. Í ár er slaufan sérhönnuð af Hendrikku Waage, sem hlotið hefur alþjóðlega viðurkenningu fyrir skartgripahönnun sína. Seldar verða tvær útgáfur önnur kostar 1000 krónur og í Skagafirði fæst hún hjá Lyfju á Sauðárkróki og Frumherja. Einnig er til sölu viðhafnarútgáfa úr silfri sem kostar 5900 kr. Hún er til sölu hjá Krabbameinsfélagi Íslands, Saga Boutique og hjá söluaðilum Hendrikku Waage á Íslandi. Næst Skagfirðingum er verslun Halldórs Ólafssonar, Glerártorgi, Akureyri. Fyrirtæki geta einnig pantað þessa slaufu hjá Tanna, http://www.tanni.is.
Ár hvert greinast um 175 íslenskar konur með brjóstakrabbamein. Samkvæmt útreikningum frá Krabbameinsskránni getur tíunda hver kona búist við að fá brjóstakrabbamein. Fjöldi nýrra tilfella hefur verið að aukast en lífshorfurnar hafa einnig batnað mikið. Um helmingur kvenna sem greindust með brjóstakrabbamein fyrir fjörutíu árum lifðu í fimm ár eða lengur en nú geta um 90% vænst þess að lifa svo lengi. Nú eru á lífi um 2000 konur sem fengið hafa brjóstakrabbamein. Nýju leitartækin gera leit að brjóstakrabbameini mun nákvæmari en áður og því verður auðveldara að greina krabbamein á frumstigi.Ýmsar gagnlegar upplýsingar um brjóstakrabbamein, októberátakið og nýju leitartækin má finna á vefnum www.krabb.is.
Krabbameinsfélag Skagafjarðar hefur í haust verið með sölu á pennum og lyklabuddum til fjáröflunar fyrir félagið. Krabbameinsfélag Skagafjarðar hefur verið með margs konar starfsemi undanfarin ár, m.a. greitt leigu fyrir sjúklinga í íbúðum Krabbameinsfélags Íslands í Reykjavík og boðið upp á námskeið fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra. Minningarkort félagsins fæst í blómabúðunum og á Heilbrigðisstofnuninni.
M.R.