Tveir Króksarar hönnuðu og smíðuðu próteinskilju fyrir rækjuiðnaðinn

Axel S. Eyjólfsson og Unnar B. Egilsson frá Sauðárkróki hafa stundað nám í vélstjórn frá Verkmenntaskólanum á Akureyri undanfarin misseri og sem lokaverkefni hafa þeir hannað og smíðað próteinskilju sem fangar hráefni sem annars færi til spillis. „Þetta er sannarlega metnaðarfullt verkefni og ef að líkum lætur mun skilvindan verða til þess að vinna megi verðmætt prótein úr affallsvatni í rækjuvinnslu,“ segir á heimasíðu VMA.

Verkið er unnið í samstarfi við Fálkann hf. í Reykjavík og þrjú fyrirtæki á Sauðárkróki; Iceprotein ehf, Vélaverkstæði KS og Tengil ehf.

„Þeir Axel og Unnar eru báðir með meistararéttindi í vélvirkjun en ákváðu að bæta við sig vélstjórninni og ljúka námi í vor. Að loknum sjótíma verða þeir báðir komnir með D-réttindi í vélstjórn, sem þýðir ótakmarkaða vélastærð. Báðir stefna þeir á sjóinn og hafa nú þegar fengið fast vélstjórapláss á togurum FISK Seafood, Axel fer á ísfisktogarann Klakk SK-5 en Unnar á frystiskipið Arnar HU-1.

Báðir höfðu þeir lokið B-réttindum áður en þeir komu í VMA til þess að bæta við sig C- og D-réttindum í vélstjórn. Axel, sem er 32ja ára, hefur verið í þrjú ár í VMA og Unnar, sem er 25 ára, í tvö ár, segir á vma.is.

Fleiri fréttir