Tveir látnir og einn særður eftir skotárás á Blönduósi

Tveir eru látnir og einn særður eftir skotárás í heimahúsi á Blönduósi sem átti sér stað klukkan hálf sex í morgun. Hinn særði var fluttur suður með sjúkraflugi. Í frétt mbl.is af málinu er haft eftir Guðmundi Hauki Jakobssyni, forseta sveitarstjórnar í Húnabyggð, að harmleikur hafi átt sér stað og verið sé að vinna í því að kalla saman áfallateymi til að halda utan um samfélagið.

Í fréttatilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi vestra sem send var út nú um ellefu leytið segir: „Um kl. 5:30 í morgun, sunnudag, barst lögreglunni á Norðurlandi vestra tilkynning um að skotvopni hefði verið beitt gegn tveimur einstaklingum í heimahúsi á Blönduósi og að um alvarlegt tilvik væri að ræða. Lögregla vopnaðist áður en farið var á vettvang, auk þess sem annað viðbragð innan lögreglu var virkjað, þar á meðal vopnuð sérsveit.

Í ljós kom að skotvopni hafði verið beitt gegn tveimur einstaklingum, þar sem einn var látinn og annar særður. Aukinheldur fannst meintur gerandi skotárásarinnar einnig látinn á vettvangi. Í framhaldi að hlúð var að hinum slasaða og vettvangur tryggður var lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra gert viðvart um málið en rannsókn sakamálsins er í höndum hans samkvæmt reglugerð nr. 660/2017 um stjórn lögreglurannsókna o.fl. Annað viðbragð var einnig virkjað, þar á meðal áfallateymi Rauða krossinn í umdæminu.

Hinum slasaða var komið með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Á þessu stigi er ekki vitað um líðan hans.“

Tekið er fram að ekki kom til þess að lögreglan þyrfti að grípa til vopna vegna atviksins. Tveir eru í haldi lögreglu vegna málsins.

- - - -
Sjá nánar:
Þetta er bara sorglegur harmleikur – mbl.is
Árásarmaðurinn handtekinn fyrr í sumar vegna hótana með skotvopn – visir.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir