Tvö töp í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins

Kjarnafæðismótið í knattspyrnu kvenna fór af stað í upphafi árs og hefur lið Tindastóls þegar spilað tvo leiki í Boganum á Akureyri. Báðir hafa leikirnir tapast en fimm lið taka þátt í mótinu og flest eru liðin skipuð ansi ungum leikmönnum og gott ef meðalaldur leikmanna nær 20 árum.

Lið Tindastóls mætti fyrst Hömrunum frá Akureyri þann 3. janúar og náðu stelpurnar ekki góðum leik. Akureyringar voru 1-0 yfir í hálfleik en þær bættu við fjórum mörkum í síðari hálfleik og úrslitin því 5-0. Frammistaðan var betri sl. laugardag þegar andstæðingurinn var sameinað lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis. Eina mark leiksins skoruðu Austfirðingarnir þó á 70. mínútu og niðurstaðan því 1-0 tap.

Stólastúlkur eiga eftir að mæta liði Þórs/KA, en leiknum var frestað á sínum tíma, og þá mæta þær liði Völsungs frá Húsavík næstkomandi sunnudag. PepsiMax-deildarlið Þórs/KA er efst á mótinu, hefur unnið báða sína leiki og er með markatöluna 13-0 að þeim loknum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir