Undirbúningur að sameiningu sveitarfélaga dregst á langinn

Undirbúningsvinna fyrir sameiningu sveitarfélaga víða um land, þar á meðal í Austur-Húnavatnssýslu, dregst á langinn vegna kórónuveirufaraldursins sem nú geisar. Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Róbert Ragnarsson, framkvæmdastjóra RR ráðgjafar sem fer með verkefnastjórn í sameiningarviðræðum sveitarfélaga á fjórum stöðum á landinu; á Suðurlandi, á Austurlandi, í Þingeyjarsýslu og í Austur-Húnavatnssýslu.

Róbert segir að vinnan haldi áfram en það hægi á henni og afgreiðslur frestist enda þurfi sveitarfélögin á öllu sínu fólki að halda núna og hafi lítið svigrúm í önnur verkefni. Öllum verkþáttum þar sem fólk þarf að hittast á vinnustofum hefur verið frestað og það leiðir til þess að verkefnum mun seinka. „Við höfum verið með fjölmenna fjarfundi þar sem upplýsingum er miðlað og átt í samráði. Þeir fundir hafa gengið vonum framar, en fjarfundaform hentar ekki nægilega vel fyrir vinnustofur,“ segir Róbert í viðtali við Morgunblaðið. Vinna starfshópa mun því frestast en önnur greiningarvinna heldur áfram svo og reglulegir fjarfundir samstarfsnefndarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir