Um 200 metra breið aurskriða í Víðidal
Á sunnudaginn féll mikil aurskriða úr Víðidalsfjalli, skammt sunnan og ofan við bæinn Dæli í Víðidal. Mun skriðan vera allt að 200 metra breið og hefur borið með sér mikið af grjóti og aur úr fjallinu. Tvær minni skriður féllu innar í dalnum og vegurinn upp á Víðidalstunguheiði fór í sundur.
Að sögn Víglundar Gunnþórssonar í Dæli, sem er uppalinn á staðnum og hefur búið þar alla tíð, minnist hann ekki skriðufalla á þessum slóðum, enda fjallið hvorki bratt né mjög hátt á þeim stað þar sem stærsta skriðan féll. Hann fór fljótlega að henni, ásamt Sigtryggi Sigurvaldasyni, bónda á Litlu-Ásgeirsá, og telja þeir að skriðan sé um 200 metra breið. Um helgina snjóaði í fjallið og hefur snjóinn enn ekki tekið upp.
Víglundur segir jafnframt að vegurinn fyrir innan Hrappstaði, þar sem farið er upp á Víðidalstunguheiði, hafi grafist í sundur, þar sem ræsi undir hann hafi ekki haft undan í vatnsveðrinu að undanförnu. Vegurinn sé því ófær að svo stöddu.