Umfangsmiklar aðgerðir til eflingar Skagafirði

Ánægjulegt er að sjá líf Skagfirðinga lifna aftur við eftir samkomubann og hafa eflaust allir fengið að finna fyrir áhrifum Covid á einhvern hátt. Sveitarfélagið Skafafjörður snýr nú vörn í sókn og hefur sveitarfélagið á síðustu vikum unnið að tillögum til viðspyrnu samfélagsins vegna þeirra áhrifa sem Covid veiran hefur haft í för með sér. Um er að ræða umfangsmiklar aðgerðir sem snerta fjölmörg svið samfélagsins og hafa sumar þeirra nú þegar komið til framkvæmda.

Á vef sveitarfélagsins kemur fram að samtals nemi fjárfestingar þess og ríkisins á svæðinu um 3,2 milljörðum króna og eru þar stærstu verkefnin framkvæmdir á vegum Landsnets og Rarik í tengslum við Sauðárkrókslínu 2 og framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar í höfnum og sjóvörnum á Sauðárkróki og Hofsósi.

Til atvinnueflingar á svæðinu hafa verið sköpuð um 140 störf nú í sumar og einnig 20 sumarstörf í tengslum við ævintýrabúðir Reykjadals í Háholti í Skagafirði. Einnig verða til 8 ný varanleg störf hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á Sauðárkróki. Til þess að efla atvinnu á svæðinu enn frekar, auka fjölbreytni hennar og fjölga atvinnutækifærum, skrifuðu iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrr í vikunni undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu koltrefjaframleiðslu í Skagafirði.

Meðal mikilvægra framkvæmda sem framundan eru má einnig nefna uppbyggingu íbúðar- og leiguhúsnæðis en fyrirhuguð er uppbygging allt að 30 íbúða á Sauðárkróki og í Fljótum á næstu mánuðum, auk þess sem unnið er að undirbúningi 40-80 íbúða til viðbótar á komandi misserum. 

Á vefnum kemur fram að sveitarfélagið vonist til þess að með þessum aðgerðum til viðspyrnu takist að draga úr þeim áhrifum sem afleiðingar Covid-19 hafi haft á skagfirskt samfélag og snúa vörn í sókn með velferð íbúa að leiðarljósi og enn frekari styrkingu samkeppnisfærni þess þegar kemur að búsetu, atvinnu og vellíðan íbúanna. Feykir mun fylgjast spenntur með þessum framkvæmdum og vonast eftir bjartari tímum framundan fyrir íbúa Skagafjarðar og landsmenn alla.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir