Undirritun samnings um rannsóknir og kynbætur á bleikju

Steingrímur J Sigfússon og Skúli Skúlason undirrita samninginn.

Í morgun undirrituðu Steingrímur Sigfússon sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Skúli Skúlason rektor Háskólans á Hólum samning um stuðning landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins við kynbætur á eldisbleikju.
Samningurinn hjóðar upp á árlegt 14 milljón króna framlag og er til fimm ára (2010-2015) . Þeir fjármunir eru þegar fyrir hendi og kalla því ekki á aukin ríkisútgjöld. Bleikjueldi hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum og í dag er framleiðsluverðmæti bleikju um 2 milljarðar á ári. Góðir möguleikar eru á að auka framleiðsluna enn frekar í nánustu framtíð.

Markmið samningsins er að ávallt séu stundaðar kynbætur á bleikju fyrir íslenskar aðstæður í matfiskeldi og að tryggja íslenskum fiskeldisfyrirtækjum jafnan aðgang að kynbættum efnivið til eldis, í þeim tilgangi að lækka framleiðslukostnað, bæta gæði fisksins og  afkomu í greininni.
Bleikjueldi er sú grein fiskeldis sem hefur verið í örustum vexti hér á landi undanfarin ár. Hér er meiri þekking og reynsla af eldi á bleikju en í nokkru öðru landi enda eru Íslendingar stærstu framleiðendur bleikju í heiminum. Þessi árangur byggist ekki síst á öflugri þróunarvinnu og rannsóknum sem farið hafa fram við Háskólann á Hólum á undanförnum tuttugu árum.
Rannsóknir og kynbætur á bleikju hófust við skólann árið 1989 og var skólinn tilnefndur sem miðstöð landbúnaðarráðuneytisins á þessu sviði. Rannsóknirnar og kynbætur hafa verið studdar dyggilega af lanbúnaðarráðuneytinu, sem og innlendum og erlendum rannsóknasjóðum. Í upphafi kynbótanna var heppilegra eldisstofna leitað í ám og vötnum á Íslandi. Náttúrulegur fjölbreytileiki bleikju í mismunandi vötnum og vatnakerfum er mikilvæg erfðaauðlind sem eldið byggir á. Prófaðir voru fjölmargir bleikjustofnar og að lokum valdir tveir sem uxu vel og hugnuðust erlendum kaupendum. Þessir stofnar hafa síðan verið kynbættir á Hólum með það að markmiði að auka vaxtarhraða og draga úr ótímabærum kynþroska. Árangur af kynbótastarfinu hefur skilað því að vaxtarhraði hefur meira en þrefaldast og ótímabær kynþroski er ekki lengur vandamál í eldinu. Í farvatninu er að nýta kynbætur einnig til að auka gæði fisksins og bæta viðnám hans gagnvart sjúkdómum.
Í heild hafa rannsóknirnar og kynbæturnar skilað miklu til fiskeldisfyrirtækja og óhætt að fullyrða að það fé sem stjórnvöld hafa lagt í rannsóknir á bleikjueldi hefur skilað sér margfalt í aukinni og hagkvæmari framleiðslu.

Fleiri fréttir