Undirskriftalistar félaga í Landssambandi eldri borgara afhentir velferðarráðherra

Helgi K. Hjálmsson, formaður LEB, Valgerður K. Jónsdóttir, framkvæmdastjóri og fulltrúar framkvæmdastjórnar gengu á fund Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, 2. mars með undirskriftir frá hundruðum félaga í LEB þar sem óskað er svara við kjarakröfum frá Landssambandi eldri borgara sem settar voru fram í bréfi sem afhent var ráðherra fimmtudaginn 30. september 2010.

Í bréfinu er óskað eftir því að leiðrétting verði gerð á kjörum eldri borgara í samræmi við þær kjarabætur sem láglaunafólk innan stéttarsamtakanna hefur fengið undanfarna mánuði. Frá ársbyrjun 2009 hafa laun þessa fólks hækkað um 16%. LEB vísar í þessu sambandi á ákvæði laga um Tryggingastofnun ríkisins en þar er kveðið á um að við ákvörðun lífeyris aldraðra skuli taka mið af breytingum á launum og verðlagi. Einnig vísar LEB til ákvæða laga um málefni aldraðra en þar segir að aldraðir eigi að njóta jafnréttis á við aðra þegna þjóðfélagsins. Jafnframt var þess óskað að kjaraskerðing aldraðra frá 1. júlí 2009 verði afturkölluð.

Þá verði markvisst unnið að því að hækka lífeyri aldraðra svo hann dugi fyrir framfærslukostnaði samkvæmt neyslukönnun Hagstofu Íslands og nú nýútgefnu neysluviðmiði. Landssambandið fer jafnframt fram á, að skattlagning vaxta af sparifé eldri borgara verði breytt og að dregið verði úr skerðingu tryggingabóta aldraðra vegna fjármagnstekna. Skerðingar bóta verði jafnframt miðaðar við nettófjármagnstekjur, þ.e. þegar greiddur hefur verið skattur af þeim, en ekki brúttótekjur eins og nú tíðkast.

LEB telur auk þess að vextir vegna tiltekinnar upphæðar sparifjár eldri borgara eigi að vera skattfrjálsir. Þá telur LEB að stórhækka þurfi frítekjumark vegna fjármagnstekna eldri borgara. Í því sambandi bendir LEB á að undanfarin ár hafi mestur hluti fjármagnstekna af sparifé verið verðbætur og því ekki raunverulegar fjármagnstekjur. Það sé ósvinna að verðbótarþáttur vaxta hafi orðið til þess að skerða tryggingabætur aldraðra. Kröfur Tryggingastofnunar um endurgreiðslur frá eldri borgurum hafi undanfarin ár að miklu leyti stafað af fjármagnstekjum sem myndaðar voru af verðbótum og vöxtum. Bakreikningar TR til eldri borgara undanfarið hefur valdið þeim verulegum vandkvæðum og ónauðsynlegum óþægindum.

Landssambandið minnir á það ákvæði stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnarflokka að beina almannatryggingakerfinu á ný í átt til hins norræna velferðarkerfis og telur að til samræmis við það loforð þurfi hið fyrsta að draga verulega úr tekjutengingum í kerfi almannatrygginga. Það er krafa LEB að hætt verði að skerða tryggingabætur vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.

LEB óskar ennfremur eftir því að svokallað vistunarmat vegna innlagna á hjúkrunarheimili verði endurskoðað og gert notendavænna en nú er.

Fleiri fréttir