Unglingar komu eldri konu til hjálpar
Í Morgunblaðinu í dag segir frá frækilegu björgunarafreki nokkurra unglinga á Skagaströnd er þeir björguðu lífi eldri konu þegar hún fékk hjartaáfall í göngutúr utan alfaraleiðar. Einn drengur í hópnum hóf hjartahnoð strax og hnoðaði í 17 mínútur þangað til sjúkrabíll kom á staðinn. „Með skjótum og réttum viðbrögðum tókst krökkunum í sameiningu að bjarga lífi konunnar,“ segir í fréttinni.
Unglingarnir, sem eru nemendur í Höfðaskóla, voru á æfingu í leiklistarvali í félagsheimilinu Fellborg seinni partinn þann 7. apríl. Fyrir tilviljun sér ein stúlkan í hópnum út um gluggann þegar konan fellur fram fyrir sig á andlitið án þess að bera hendurnar fyrir sig. Konan var á vegslóða 150 - 200 metra frá félagsheimilinu þegar hún hneig niður. Þegar unglingarnir sáu að hún reis ekki aftur á fætur spruttu þau af stað.
Það var Viktor Már Einarsson, í 10. bekk, sem tók frumkvæðið og hringdi í neyðarlínuna til að fá ráð og skipulagði aðgerðir meðan hann hóf hjartahnoð. Viktor hélt síðan áfram að hnoða í 17 mínútur eða þar til sjúkraflutningamenn tóku við.
„Viktor og hinir unglingarnir hafa fengið tilsögn í skyndihjálp í skólanum sem greinilega kom sér vel í þessu tilfelli. Það má sannarlega hrósa krökkunum og þá sérstaklega Viktori fyrir að halda ró sinni og bregðast við þessari óvæntu uppákomu á hárréttan hátt,“ segir í fréttinni.
Uppfært kl. 10:53: Í upphaflegri frétt kom fram að konan væri þungt haldin á Landsspítalanum en ábending hefur borist um að konan hafi látist sl. föstudag. Feykir vottar fjölskyldu hennar og aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.
