Ungt skagfirskt ljóðskáld fær verðlaun

Á dögunum afhenti lista- og menningarráð Kópavogs Sindra Freyssyni Ljóðstaf Jóns úr Vör við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi. Einnig voru tilkynnt úrslit í ljóðasamkeppni grunnskólanna í Kópavogi og þar tók ungur Skagfirðingur á móti fyrstu verðlaunum fyrir ljóð sitt Myrkrið úr höndum Ármanns Kr. Ólafssonar bæjarstjóra og Karenar E. Halldórsdóttur formanns Lista- og menningarráðs.
Unga skáldið heitir Henrik Hermannsson og er nemandi í 7. bekk í Hörðuvallaskóla. Hann er sonur Önnu Maríu Ómarsdóttur Kjartanssonar og Hermanns Halldórssonar frá Steini.
Ljóð Henriks hljóðar svo:
Myrkrið
Það er dimmt og ég er hræddur
ég veit ekki hvert ég er að fara eða hvar ég á heima.
Vindurinn blæs á móti mér og það rignir
mér finnst ég vera einhver annar.
Ég hleyp eins hratt og ég get.
Ég heyri öskur og hleyp enn hraðar
inn í myrkrið.
Ég hleyp bara eitthvert í von um að ég komist heim.
Ég er þreyttur og mig langar að sofna
en ég get það ekki og verð að halda áfram
en ég er rennblautur og leggst á jörðina.
Ég gefst upp og hætti að reyna
ég vissi að það var enginn tilgangur að reyna.
En í sama bragði sá ég spegilmynd mína
ég spyr sjálfan mig hvað get ég gert?
Ég ákvað að ég ætlaði ekki að gefast upp
ég stóð upp og hljóp eins hratt og ég gat.
Ég sá ljós þarna átti ég heima.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.