Ungur Húnvetningur fékk verðlaun í ritlistarsamkeppni

Hersteinn Snorri með viðurkenningarskjalið sitt. Mynd: Facebooksíða Félags leikskólakennara.
Hersteinn Snorri með viðurkenningarskjalið sitt. Mynd: Facebooksíða Félags leikskólakennara.
Hersteinn Snorri Baldursson nemandi í leikskólanum Ásgarði í Húnaþingi vestra hlaut önnur verðlaun í ritlistarsamkeppninni Að yrkja á íslensku sem Kennarasamband Íslands efndi til í tilefni af degi leikskólans sem haldinn var hátíðlegur þann 6. mars sl. Samkeppnin er 

liður í vitundavakningu sem Kennarasambandið hratt af af stað á Alþjóðadegi kennara í haust. Þá var ákveðið að setja móðurmálið í forgang og vinna að verndun og eflingu þess.

 

Verðlaunaljóð Hersteins heitir Skipstjórinn og hljóðar svo:

Skipstjórinn

Einu sinni var skipstjóri
og lét hann alla gera allt í skipinu
en skipstjórinn stýrði bara allan tímann.
Skipstjórinn dó
og flutti upp í skýin
og til Guðs.
Maðurinn sem drap skipstjórann var vondur
og hann fór til helvítis.

Í umsögn dómnefndar segir: Í ljóðinu Skipstjórinn er sögð saga af lífsbaráttu um borð í skipi, kannski fiskitogara sem aflar þjóðartekna. Illvirki er framið og morðingi fær makleg málagjöld. Mynd af himnaríki og helvíti er raunveruleg í huga ljóðmælanda og munur á réttu og röngu afdráttarlaus, ef allt væri svona skýrt í heimi hér væri gaman að lifa. Ískaldur raunveruleiki úr sjávarþorpi.

Hersteinn Snorri fékk viðurkenningarskjalið sent að sunnan og var hann að vonum glaður þegar tilkynnt var um úrslitin. Degi leikskólans var vel fagnað í Ásgarði, opið hús var fyrir gesti og gangandi, kór leikskólans söng milli þess sem sögur og ljóð voru flutt. 

Á vef Kennarasambands Íslands segir að þátttaka í ritlistarsamkeppninni hafi verið góð og að borist hafi vel á annað hundrað ljóð, sögur, örsögur og textar. Dómnefnd var skipuð Haraldi Frey Gíslasyni, rithöfundi og formanni Félags leikskólakennara, Steinunni Ingu Óttarsdóttur, gagnrýnanda og sérfræðingi hjá Félagi framhaldsskólakennara, og Sigrúnu Birnu Björnsdóttur, formanni Samtaka móðurmálskennara og sérfræðingi í jafnréttis- og vinnuumhverfismálum hjá KÍ.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir