Upp á topp með Tindastól!

Keppni í 1. deild karla í knattspyrnu lauk í gær og sóttu Tindastólsmenn deildarmeistara Leiknis heim í Breiðholtið. Stólarnir héldu sjó næstum því fram að hálfleik en þá fór að síga á ógæfuhliðina og þegar upp var staðið höfðu Leiknismenn gert fjögur mörk án þess að Stólarnir næðu að svara fyrir sig.

Það er kannski óþarfi að nefna það en heimamenn voru sterkari aðilinn allan leikinn og Tindastólsmenn hugsuðu fyrst og fremst um að verja mark sitt og koma í veg fyrir slæman skell. Það leit lengi út fyrir að Stólarnir kæmust í kaffipásuna með markið snoturt en Ingvi Hrannar varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark á 44. mínútu.

Í síðari hálfleik héldu heimamenn uppteknum hætti og sköpuðu sér nokkur færi. Fannar Þór Arnarsson kom þeim í 2-0 á 60. mínútu og Matthew Horth bætti þriðja markinu við á 77. mínútu. Magnús Már Einarsson setti endapunktinn við frábært sumar hjá Leiknismönnum þegar hann kom þeim í 4-0 á 85. mínútu.

Tindastóll endaði því keppnistímabilið með fjögur stig í 22 leikjum sem er auðvitað alveg hræðilegt. Liðið gerði 15 mörk en fékk á sig 71 sem segir þá sögu að margir leikir töpuðust stórt – þó geta menn kannski huggað sig við að engin stórslys urðu á borð við nokkra leiki Völsunga frá Húsavík í fyrra sumar sem fengu meðal annars á sig 16 mörk í einum og sama leiknum.

Eins og áður hefur komið fram í lýsingum á leikjum Stólanna þá var það vitað áður en keppni hófst í sumar að það yrði á brattann að sækja hjá Tindastóli. Það varð síðan ekki til að bæta stöðuna að nokkrir lykilmenn hafa átt í meiðslum og þá hefur heppnin heldur ekki fylgt liðinu innan vallar. Það er þó ekkert annað í stöðunni núna en að kyngja vonbrigðum sumarsins og vonandi stefna menn að því að koma sterkir til leiks næsta sumar og komast aftur á sigurbraut. Upp á topp með Tindastól!

Fleiri fréttir