Uppsögnum frestað um viku
Sjúkraflutningamenn á Blönduósi hafa frestað gildistöku uppsagna um eina viku í von um að kjaradeila þeirra leysist en sex af þeim sjö sjúkraflutningamönnum sem starfa hjá HSN á Blönduósi hafa sagt upp störfum.
Í samtali við Ríkisútvarpið í hádegisfréttum í gær segir Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna þá hafa ákveðið að fresta aðgerðum að ósk yfirmanna hjá HSN. „Yfirmenn óskuðu fast eftir því, enda ekki um neina aðra að hlaupa í þessi störf. Þannig að þeir hafa samþykkt að fresta uppsögnum um eina viku."
Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins var rætt við Þórð Pálsson, sjúkraflutningamann á Blönduósi, sem sagði óánægju sjúkraflutningamanna beinast að því að þeim séu ekki greidd laun samkvæmt kjarasamningi, heldur eftir samkomulagi við ríkið. Við erum með lélegri tryggingar en þeir sem eru í föstu starfi og veikindarétturinn mjög lítill,“ segir Þórður. Ennfremur eru sjúkraflutningamenn á Blönduósi óánægðir með að sjúkraflutningamenn á Blönduósi sitji ekki við sama borð og starfsbræður þeirra á Siglufirði eða á Húsavík sem á rætur að rekja til þess að þegar sex heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi voru sameinaðar í eina þá kom starfsfólk inn á ólíkum forsendum og ekki hefur tekist að jafna kjörin.
Þórður segir að sjúkraflutningamönnum sé full alvara og hafi samkomulag ekki tekist í næstu viku muni þeir leggja niður störf.
Tengdar fréttir:
Vandræðaástand að skapast í sjúkraflutningum í Austur-Húnavatnssýslu
Sjúkraflutningamenn á Blönduósi segja upp störfum