Útgáfu Byggðasögu fagnað
Á mánudagskvöldið var haldin samkoma að Hólum í Hjaltadal til að fagna útkomu 6. bindis Byggðasögu Skagafjarðar að viðstöddu fjölmenni. Fram kom að ritverkið væri einstakt á landsvísu, eitt viðamesta og metnaðarfyllsta verkefni í bókaútgáfu hér á landi en að þessu sinni er það Hólahreppur hinn forni sem fjallað er um.
Hjalti Pálsson ritstjóri verksins tók fyrstur til máls eftir að Bjarni Maronsson hafði sett samkomuna og þakkaði hann þeim fjöldamörgu sem hafa komið að útgáfu bókanna. Þakkaði hann Agli Bjarnasyni sérstaklega aðkomu hans að verkinu en það hóf hann með Hjalta árið 1996 og starfaði að því í 11 ár. Einnig sagði Hjalti frá góðri samvinnu við Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga sem bæði var skemmtileg og árangursrík. Sem dæmi hefði fyrir tilviljun, þegar unnið var í Kolbeinsdal, fundist kirkjugarður á Bjarnastöðum sem ekki var vitað um og engar heimildir fyrir en gröf sem þar fannst lá undir Heklugjósku frá 1104.
Ásta Pálmadóttir sveitarstjóri Skagafjarðar tók við fyrsta eintakinu og sagði það mikinn heiður og sérstök ánægja að fá að taka á móti bókinni á Hólastað þar sem hún sjálf var skírð á jóladag 1964. Fjölmörg atriði voru á dagskrá bæði upplestur úr hinni nýútkomnu bók sem vöktu hrifningu meðal gesta og erindi henni tengd voru flutt. Þá söng Kirkjukór Hóladómkirkju sálminn Heyr himnasmiður sem Kolbeinn Tumason orti skömmu áður en hann gaf upp öndina í Víðinesbardaga árið 1208. Annað tónlistaratriði var flutt af tveimur ungum mönnum sem spiluðu tvö lög á blásturshljóðfæri.
Bókin er 384 blaðsíður að stærð með 630 ljósmyndum, kortum og teikningum en þar af er kaflinn um Hóla 96 blaðsíður með rúmlega 170 ljósmyndum.
.