Útsvarsgreiðslur og tekjuskattur – tilkynning frá Sveitarfélaginu Skagafirði

Örlítils misskilnings hefur gætt vegna bókunar á fundi byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 25. nóvember sl. þess efnis að mögulega verði útsvarshlutfall árið 2011 í Sveitarfélaginu Skagafirði hækkað um 1,2 prósentustig á næsta ári, eða úr 13,28% í 14,48%.

Einhverjir hafa tekið þessu sem svo að um auknar álögur sé að ræða en svo er ekki . Samanlögð tekjuskattsprósenta og útsvarsprósenta verður óbreytt á milli ára hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.

Þessar mögulegu breytingar eru tilkomnar vegna þess að til stendur að sveitarfélögin í landinu taki við þjónustu við fatlaða af ríkinu um næstu áramót. Ef lagafrumvörp þess efnis verða samþykkt á Alþingi mun ríkið, samhliða því að færa þjónustu við fatlaða frá sinni hendi, lækka tekjuskattshlutfallið um 1,2 prósentustig. Á móti mun útsvarshlutfall sveitarfélaganna hækka um sama hlutfall um leið og þjónustan færist til sveitarfélaganna.

Framlag vegna þjónustu við fatlaða verður óbreytt hjá þegnum landsins þótt ábyrgðin á þeirri þjónustu flytjist af hendi ríkisins og til sveitarfélaganna.

Fleiri fréttir