Vaknar nýdrepinn á nánast hverjum morgni

Palli ansi þreytulegur.
Palli ansi þreytulegur.

Dreifarinn fékk óvænta upphringingu frá Páli Sigurðssyni trésmið á dögunum og var hann vægast sagt óhress. „Já, ég er fullur af vanlíðan og þessi læti þarna í Miðausturlöndum valda mér miklu hugarangri. Ég kvíði því satt best að segja að vakna á morgnana því í hvert skipti sem ég skrúfa frá úvarpinu og fréttalestur hefst þá líður mér eins og það sé búið að drepa mig ítrekað.“

Palla þekkja flestir af góðu einu enda hefur hann verið dyggur stuðningsmaður Stólanna í gegnum árin og eftir því sem Dreifarinn hefur hlerað þá missti hann aldrei af leik hér á árum áður. Því hefur þó verið fleygt að hann hafi verið ansi hvumpinn og virst eitthvað beygður nú síðustu misserin. Og kannski ekki að furða ef hann vaknar svona illa á sig kominn.

En hvernig stendur eiginlega á þessari vanlíðan Palli? „Nú ég skildi við fyrri konu mína, hana Gerði, fyrir fjórum árum og hætti þá með Pallagerðina, fyrirtækið mitt...“

Og er það skilnaðurinn sem hefur reynst þér svona erfiður? „Já nei nei, alls ekki, skilnaðurinn var nú alveg það besta sem hefur komið fyrir mig. Þá kynntist ég nefnilega henni Kristínu minni, úti á Tenerife, skilurðu?“

Nú jájá, einmitt. „Já og fékk um svipað leiti vinnu á trésmíðaverkstæði hérna í bænum. Þeir voru nú fljótir að sjá spaugilegu hliðina strákarnir á þessum samskotum okkar Stínu og þeir byrjuðu að kalla mig Palla Stínu. Svo fattaði einn gárungurinn að þá væri ég að sjálfsögðu Palli-Stínu-maður skilurðu? Heheh. Auðvitað ansi fyndið, ég sé það nú alveg sjálfur og hafði nú gaman að þessu til að byrja með. Það var verið að segja við kúnnana: Palli-Stínu-maðurinn reddar þessu og þannig.

En hvað svo? „Nú ég er bara svo vanur því að vera Palli-Stínu-maðurinn að ég fer alveg í hnút þegar ég skrúfa semsagt frá útvarpinu á morgnana og í fréttum er það helst að Palli-Stínu-maður hafi verið drepinn í átökum á Gaza skilurðu eða Austurbakkanum eða hvað þetta nú heitir. Mér finnst þetta eins og högg í magann í hvert skipti, þú skilur að vera drepinn svona ítrekað, og eiginlega alveg ömurleg byrjun á deginum sko.

Og hvað er til ráða Palli? „Ég bara veit það ekki... kannski verð ég bara að skilja við Stínu!? 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir