Valkyrjuhópur, rokkarar og aðrir góðkunningjar á meðal hljómsveita

Nöfn fjögurra hljómsveita sem troða upp á Tónlistarhátíðinni Gærunni á Sauðárkróki helgina 15. og 16. ágúst nk. voru gerð kunn í dag en fyrstu fjögur nöfnin voru kynnt til leiks á Feyki.is í gær. „Við iðum í skinninu af spenningi og tilkynnum hérna næstu fjórar hljómsveitir sem koma til með að spila á Gærunni í ágúst,“ segir á facebook síðu tónlistarhátíðarinnar.

„Fyrstar ber að nefna einn umtalaðasta valkyrjuhóp landsins, þær Reykjavíkurdætur sem ætla að koma með sitt rímnaflæði á Krókinn. Popp/rokkararnir í Kvika ætla líka að taka fyrir okkur nokkur velvalin lög.

Rokkararnir í hljómsveitinni Myrká, góðkunningjar Gærunnar, ætla líka að koma alla leið frá Selfossi. Síðastur á listanum að þessu sinni er svo goðið Rúnar Þórisson, fyrrum gítarleikari Grafíkur, sem gaf nýlega út plötuna Sérhver vá,“ segir um böndin á síðunni.

Fleiri fréttir