Vantar karlmenn í leikuppfærslu
Leikfélag Sauðárkróks ætlar að setja upp leikrit um tvíburana góðkunnu Jón Odd og Jón Bjarna nú í haust og er samlestur leikara þegar hafinn. Enn er ekki búið að manna verkið að fullu og er leitað að karlmönnum sem náð hafa 16 ára aldri til að taka þátt.
Alls eru 23 hlutverk í verkinu en hægt er að komast af með 18 leikara að sögn Sigurlaugar Vorsísar Eysteinsdóttur annars leikstjóra verksins. Sigurlaug eða Silla eins og hún er kölluð segir að 4 karlmenn vanti og standi nú leit yfir en ef einhverjir sem þetta lesa og hafa áhuga á að leika, mega þeir hafa samband við hana í síma 660 4681 eða við Stefán Friðrik sem einnig er leikstjóri í síma 86805021.
Aðspurð um aldur leikaranna með tilliti til tvíburanna segir Silla að hana hafi langað til að hafa þetta eins og gert var með Kalla á þakinu þar sem Sveppi fór með hlutverk barnsins. –Þegar komið er í leikhús skiptir aldur leikarans ekki máli því fullorðið fólk getur leikið börn, segir Silla.
Silla segir að búið sé að manna kvenhlutverkin og fólk sé komið í tæknimálin en ef einhver vill hjálpa til er alltaf pláss.
Leikritið verður frumsýnt 31. október næstkomandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.