Vegleg dagskrá á Eldi í Húnaþingi
Á dagskránni í dag, föstudag, má meðal annars finna bjórjóga sem verður í Félagsheimilinu kl. 16:00, heimsmeistarakeppnin í Kleppara fer fram í Grunnskóla Húnaþings vestra kl. 16:00 og hið árlega Flemmingpútt fer fram við heilsugæsluna kl. 17:00.
Klukkan 18:00 er boðið upp á gamansýningin Tatterdemalion í Félagsheimilinu. Um er að ræða sprenghlægilega, fráleita og töfrandi gamansýningu með hinum stórkostlega Henry Maynard. Þjáningar, svartur húmor og fegurðarfræði Viktoríutímans blandast saman og skapa frábæra og dularfulla umgjörð ljóðrænnar og súrrealískrar ferðar.
Sverrir Bergmann og Halldór Gunnar koma fram í Borgarvirki kl. 21:00. Sverrir og Halldór Gunnar hafa starfað saman í tæpan áratug og hafa þeir spilað vítt og breitt um landið og ýmislegt brallað á þeim tíma. Sverrir hefur einnig komið fram með Fjallabræðrum töluvert á þessum tíma og hefur hann sungið inn plötur hjá bræðrunum. Fyrir rúmu ári síðan stofnuðu þeir hljómsveitina Albatross sem sendi fyrst frá sér lagið ,,Ástin á sér stað” ásamt Friðrik Dór. Einnig kom út stuttskífa á netinu sem ber heitið ,,Albatross í Hlégarði” en þar er að finna nokkur tökulög. Nýjasta afurð Albatross er lagið ,,Ég ætla að skemmta mér” og kom það út í lok árs 2017.
Dagskránni lýkur svo í dag á tónleikum Moses Hightower í Félagsheimilinu kl. 23:00. Moses Hightower er talin ein fremsta hljómsveit landsins en hún hefur verið í fararbroddi íslenskrar sálartónlistar síðan 2007. Bandið hefur leikið á uppseldum tónleikum á stórum og smáum viðburðum, gefið út þrjú albúm í fullri lengd sem hlotið hafa einróma lof gagnrýnenda, og hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin.
Dagskrá Elds í Húnaþingi má finna hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.