Veirusýking í minkabúi í Skagafirði

Staðfest hefur verið að veirusýking hefi fundist í minkastofni á búinu á Óslandi í Skagafirði. Að sögn Kristjáns Jónssonar bónda kom lokaniðurstaða um það í gær.

Þar sem sjúkdómurinn er ólæknandi þarf að skera niður öll dýr á búinu og í kjölfarið hefst þrif og sótthreinsun húsa og tækja. Kristján segir að vírusinn hafi komið í ljós í reglubundinni blóðprufu en árlega eru tekin blóðsýni af um 10% lífdýra á öllum minkabúum í landinu í þeim tilgangi að fylgjast með hvort sjúkdómurinn hafi gert vart við sig.

 –Sjúkdómurinn er á byrjunarstigi hjá mér þannig að hann er ekki farinn að hafa áhrif á dýrin, segir Kristján. –Sjúkdómurinn hefur áhrif á frjósemi dýranna, fóðrun og útlit skinna þegar hann hefur grasserað lengi.

-Ég geri ráð fyrir að fá fyrirskipun frá hinu opinbera að skera niður, þannig er ferlið, segir Kristján aðspurður hver verði næstu skref. – Ég fæ líklega einhverjar bætur frá Ríkinu hliðstætt og þegar riða kemur upp í fjárstofni.

Kristján vill leggja á það áherslu að þessi sjúkdómur er eingöngu bundinn við mink þannig að öðrum dýrum og mönnum stafar engin hætta af honum.

Veira þessi er landlæg í villta minkastofninum hér á landi en sjúkdómurinn af hennar völdum hefur af og til greinst hér á landi og er vel þekktur í búum í danmörku.  

 

 

 

Fleiri fréttir