Veisla framundan með Fyrirliðanum og fröllum

Fyrirliðinn með Fyrirliðann. Þetta getur ekki klikkað! MYND AF FB
Fyrirliðinn með Fyrirliðann. Þetta getur ekki klikkað! MYND AF FB

Tindastóll spilar annan leik sinn í Dominos-deildinni í körfubolta í kvöld en þá mæta strákarnir okkar liði KR í DHL-höllinni. Leikurinn verður sýndur á KRtv og hefst kl. 19:15. Af þessu tilefni fer af stað ný fjáröflun Körfuknattleiksdeiildar Tindastóls í samstarfi við Hard Wok Café en stuðningsmönnum Stólanna og öðrum svöngum gefst tækifæri á að panta sér Fyrirliðann – gómsætan hamborgara með fröllum – og renna 500 krónur af hverjum borgara beint í bauk Tindastóls.

Í tilefni af endurkomu körfunnar náði Feykir í skottið á formanni Kkd. Tindastóls, Ingólfi Jóni Geirssyni, og lagði fyrir hann nokkrar spurningar.

Verða allir leikir karlaliðs Tindastóls sýndir á Stöð2Sport? „Það verða nú ekki allir leikirnir sýndir á Stöð2Sport en við erum með spennandi lið og hljótum að teljast áhorfendavænir, get allavega sagt að allir heimaleikir meistaraflokkanna hérna verða sýndir beint, hvort sem er hjá okkar frábæra TindastóllTV eða á Stöð2Sport.“

Spurður út í hvernig Kkd. Tindastóls nær að afla tekna á þessum erfiðu tímum segir Ingó: „Þar sem ekki er leyfi fyrir áhorfendum ennþá eru okkar einu tekjumöguleikar Vildarvinir Kkd. Tindastóls, auglýsingasala, beinir styrkir og fjáröflunarverkefni sem bæði felast i vinnu og söluverkefnum. Það eru að sjálfsögðu allir velkomnir i Vildarvina-klúbbinn okkar og svo vonumst við eftir góðum viðbrögðum í næsta söluverkefni.“ Næsta stóra fjáröflun deildarinnar er sala á 5 kíló pakkningum af hágæða ýsu frá Fisk Seafood; roðlausri, beinlausri og lausfrystri. Það ætti ekki að fara fram hjá fólki þegar salan fer af stað en askjan verður seld á 7.500 krónur.

Er eitthvað sem stuðningsmenn geta gert til að hjálpa til? „Í vetur höfum við fengið staðfest það sem við vissum nú reyndar alveg – að Tindastóll á langbesta stuðningsfólk landsins og hefur okkur verið mjög vel tekið í verkefnum vetrarins. Við munum halda áfram að reyna hinar ýmsustu fjáraflanir i vetur en best er að láta þær skýrast með tímanum svo eg rugli nú engu. En loksins erum við að fá að njóta íslensks körfubolta þó að það verði af skjánum til að byrja með. Það er veisla framundan, þétt prógram og flottir leikir,“ segir Ingó.

Feykir minnir á Fyrirliðann sem verður fáanlegur fyrir leik, eða frá kl. 18:00–19:15 og raunar líka í hálfleik. Hver Fyrirliði (ostborgari með grænmeti) með fröllum og kokteilsósu fer á 1.890 krónur og renna sem fyrr segir 500 krónur af hverjum borgara til Tindastóls. „Hard Wok er bara eðal stuðningsaðili sem hjalpar okkur við hvert tækifæri,“ segir þakklátur formaðurinn að lokum.

Þeir sem vilja gerast Vildarvinir körfuknattleiksdeildar geta smellt á þessa slóð, skráð sig inn á island.is með rafrænu auðkenni og kynnt sér málið >

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir