Vel heppnaður dagur og söfnun gengur vel

Það var ekkert gefið eftir í boltanum.MYND GG
Það var ekkert gefið eftir í boltanum.MYND GG

Fjölskyldufjör var haldið föstudaginn 12. apríl sl. í Varmahlíð þegar Ungmenna- og íþróttafélagið Smári, Foreldrafélag Varmahlíðarskóla og Kvenfélög Seyluhrepps, Lýtingsstaðahrepps, Akrahrepps og Staðarhrepps tóku höndum saman og hófu söfnun fyrir leik- og íþróttatækjum í Varmahlíð. Með söfnuninni var verið að svara kalli nemenda miðstigs Varmahlíðarskóla við erindi þar sem þau bentu á þörfina fyrir bættri aðstöðu til útiveru og hreyfingar.

Fjörið hófst í íþróttahúsinu í Varmahlíð strax og skóla lauk þar sem foreldrar og börn gátu reynt sig í íþróttasprikli undir stjórn þjálfara Smára. Eftir spriklið var svo hægt að fara í Varmahlíðarskóla þar sem boðið var upp á pizzur og tilheyrandi. Ágóðinn af sölunni rann í leik- og íþróttatækjasjóð en einnig má leggja inn á söfnunarreikning í nafni Smára 0133-15-3129, kt. 710895-2369. Það sem blaðamaður kemst næst voru bakaðar 40 pizzur og eitthvað á milli tvö og þrjúhunduð manns sem snæddu.

Dagurinn var einstaklega vel heppnaður og stendur söfnunin í 1.179.368 krónur eftir daginn og að sjálfsögðu má ennþá leggja söfnunni lið. Nemendur eru að vonum mjög þakklátir öllum þeim sem hafa sýnt verkefninu áhuga og kennarar eru afar stoltir af árangri nemenda sinna. Blaðamaður var þátttakandi og náði að smella örfáum myndum milli leikja. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir