Vel heppnaður fundur um einelti

Á þriðjudagskvöldið stóð Heimili og Skóli, Liðsmenn Jerico og Sveitarfélagið Skagafjörður í samstarfi við fleiri aðila fyrir opnum borgarafundi um einelti í Húsi frítímans. Auk þeirra erinda sem flutt voru á fundinum sýndi leikhópurinn Elítan, sem skipaður er nemendum úr Árskóla leikrit eftir Rannveigu Þorkelsdóttur. Leikritið er skrifað á ensku en leikstjórinn, Íris Baldvinsdóttir, þýddi verkið.

 Leikritið sýndi á frumlegan og skemmtilegan hátt ýmsar myndir eineltis og afleiðingar þess. Fundurinn var afar vel sóttur og umræður í lok hans góðar og gagnlegar.  Grunnskólar í Skagafirði starfa allir eftir svo kallaðri Olweusaráætlun sem ætlað er að vinna gegn einelti. Kennsluráðgjafi grunnskólanna, Helga Harðardóttir, sem jafnframt er verkefnisstjóri Olweusaráætlunarinnar, vinnur með sérstöku teymi í hverjum grunnskóla fyrir sig eftir aðferðafræði áætlunarinnar.

Einelti er ljótur blettur á mannlegu samfélagi sem erfitt virðist vera að útrýma. Við sem einstaklingar og samfélag berum öll ábyrgð og eigum að taka skýra og einarða afstöðu gegn einelti í hvaða mynd sem er, segir á heimasíðu svf. Skagafjarðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir