Vel mætt á framboðsfundi í Skagafirði

Vel var mætt á alla þrjá framboðsfundi sem haldnir voru í Skagafirði í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. Fimmtudaginn 17. maí var fyrsti fundurinn haldinn á Sauðárkróki og hinir tveir sl. mánudag á Hofsósi og Varmahlíð. Áskell Heiðar Ásgeirsson stjórnaði fundunum sf mikilli röggsemi og var hann ánægður með mætingu og málefnalega umræðu. Feykir hafði samband við Heiðar og forvitnaðist um fundina.
„Mér fannst þessir fundir ganga vel og mætingin var stórfín, fundargestir duglegir að spyrja og úr urðu mjög góðar umræður,“ segir Ásgeir Heiðar en að hans mati var ekkert eitt sem einkenndi fundina annað en það hversu vel var mætt og mikið um fjölbreyttar og góðar umræður. „Það voru svolítið mismunandi áhersluatriði milli funda, eins og eðlilegt er a.m.k. upp að vissu marki."
Hann segir að á Sauðárkróki og á Hofsósi hafi verið nokkuð rætt um íbúalýðræði, íbúafundi og fleira í þeim dúr, auk þess sem nokkuð var spurt um uppbygginguna í Aðalgötunni á Sauðárkróki. „En það komu líka spurningar um stór mál eins og útsvar, fasteignagjöld, þjónustu við aldraða og húsnæðisstefnu svo eitthvað sé nefnt. Mér fannst hinsvegar athyglisvert að enginn spurði um skólamál á Króknum. Á Hofsósi og í Varmahlíð voru það skólamál og þá sérstaklega leikskólamál sem voru mest á dagskrá en sorpmálin brenna líka nokkuð á fólki utan Sauðárkróks. Þá voru íbúar á Hofsósi líka forvitnir að vita hvað stendur til varðandi íþróttahús þar og segja má að skipulagsmál hafi mikið verið til umræðu í Varmahlíð og þá einkum skortur á deiliskipulagi þar.“
Heiðar segist hafa haft gaman af þessum fundum og var ánægður að sjá kraftinn í frambjóðendum og áhugann sem fólk sýndi þeim. „Vonandi skilar það sér í góðri kjörsókn og öflugri sveitarstjórn,“ segir hann að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.