Verða Tindastóll og Hvöt með sameiginlegt lið í meistara flokki karla næsta sumar

 Knattspyrnudeild Tindastóls  og knattspyrnudeild Hvatar hafa á undanförnum dögum átt í viðræðum um aukið samstarf.  Þessi tvö félög hafa átt í farsælu samstarfi með nokkra yngri aldursflokka á undanförnum árum sem hafa náð athyglisverðum árangri.

Á heimasíðu Tindastóls segir; „Fundir deildanna tveggja hafa ekki síst snúist um þann möguleika að senda eitt sameinað lið til keppni í m.fl. karla.  Þetta er stór ákvörðun í alla staði fyrir bæði félögin ef að sameiningu yrði og því mikilvægt að ákvörðunin verði vel ígrunduð.

Það er alls ekki verið að tala um að leggja félögin niður, starfið hjá Tindastóli yrði eins í yngri flokkunum og kvennaboltanum ef af þessari sameiningu yrði.

Nk. sunnudag kl. 19:30 verður knattspyrnudeildin með opinn fund í Húsi Frítímans um þetta mál.  Þar munu félagsmenn geta komið og sagt sína skoðun og eins verða þeir upplýstir um stöðuna í þessu stóra máli.

Það skal tekið fram að engin ákvörðun hefur verið tekin enda málið stærra en svo að hún sé tekin í fljótfærni.

Knattspyrnudeild Tindastóls.“

Fleiri fréttir