„Verðum að halda vöku okkar og sýna skynsemi“
Það er án vafa í mörg horn að líta hjá sveitarstjórum á Norðurlandi vestra þessar vikurnar og vinnudagurinn langur. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Svf. Skagafirði, stýrir fjölmennasta sveitarfélaginu á svæðinu og Feykir sendi honum nokkrar spurningar, þó að með því væri kannski verið að bera í bakkafullan verkefnalæk hans, því auk þess að vera sveitarstjóri sinnir Sigfús búskap í Stóru-Gröf syðri og verkefnin því ærin.
Feyki lék forvitni á að vita hvert ástandið væri í sveitarfélaginu Skagafirði og Sigfús svaraði spurningunum í morgun.
Við lifum á fordæmalausum tíma. Hvað er það í stuttu máli sem hefur breyst í Sveitarfélaginu Skagafirði frá því að Covid19 hóf að herja á jarðarbúa? -Það er ansi margt sem hefur breyst í kjölfar samkomubanns. Skólum, leikskólum og frístundastarfsemi hafa verið settar skorður í fjölda sem hefur haft talsverð áhrif á starfsemina. Þjónustu við eldri borgara hefur sömuleiðis þurft að breyta, íþróttamiðstöðvar hafa lokað og svona mætti áfram telja. Starfsemi margra fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka hefur einnig breyst. Starfsstöðvum hefur víða verið skipt upp og margir vinna heima hjá sér. Allt hefur þetta mikil áhrif á samfélagið en í stuttu máli sagt hafa íbúar brugðist gríðarlega vel við, þjappað sér saman og unnið vel úr erfiðum aðstæðum. Útlit er fyrir að það styttist í að við komumst yfir erfiðasta hjallann hvað heimsfaraldurinn varðar en við verðum að halda vöku okkar og sýna skynsemi til að reyna að forðast að smit aukist að nýju.
Hvað er það helst sem sveitarfélagið hefur þurft að takast á við síðustu vikurnar? -Það er að aðlaga starfsemi sína og þjónustu að þeim takmörkunum sem hafa verið settar. Einnig hefur sveitarstjórn unnið ötullega að skipulagi mótvægisaðgerða því heimsfaraldurinn hefur ekki aðeins áhrif á grunnþjónustu sveitarfélagsins heldur ýmsar atvinnugreinar einnig.
Er fólk að missa atvinnu sína í Skagafirði? -Já, því miður er nokkuð um það að fólk hafi lent í minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda. Einnig höfum við áhyggjur af starfsemi ákveðinna atvinnugreina eins og t.d. ferðaþjónustunnar en skellurinn gæti orðið langvinnari þar.
Hvernig telur þú að staða fyrirtækja og verslana sé á svæðinu? Erum við að sleppa betur hvað það varðar en mörg önnur svæði/sveitarfélög? -Við erum að sleppa betur en sum landsvæði en við erum samt það snemma í þessu ferli að efnahagslegu afleiðingarnar eru ekki komnar í ljós að fullu ennþá.
Hyggst sveitarfélagið ráðast í einhverjar sérstakar framkvæmdir næsta misserið sökum ástandsins? -Sveitarfélagið er að skoða að flýta framkvæmdum og viðhaldsverkefnum hjá sér og við höfum einnig verið í miklum samskiptum við ríkisvaldið vegna framkvæmda sem ríkið og sveitarfélagið geta ráðist sameiginlega í á svæðinu.
Eru flest verkefni vinnudags sveitarstjóra þessa dagana lituð af verkefnum og vandamálum tengdum Covid19? -Það fer ekki hjá því að ansi mörg verkefni þessa dagana tengjast Covid-19 með einum eða öðrum hætti. Við erum hins vegar svo farsæl að með starfsfólki eins og við höfum á að skipa í sveitarfélaginu eru verkefnin mun auðleystari en ella. Svo hjálpar einnig mikið til að við fáum mikinn stuðning og skilning frá samfélaginu og í raun má segja að allir leggi sig fram um að vinna eins vel og unnt er úr erfiðum aðstæðum. Það er á tímum eins og þeim sem við upplifum núna sem ég held við finnum öll hversu gríðarlega lánsöm við erum að vera hluti af skagfirsku samfélagi þar sem íbúum er virkilega umhugað um velferð og vellíðan náungans.
Ef einhver tími er til að skilja vinnuna við sig, hvað gerir sveitarstjórinn til að hlaða batteríin? -Já, það er nauðsynlegt að gefa sér tíma til að hlaða batteríin eins og þú segir. Ég er komin með nokkur hross á járn og ríð aðeins út. Ég hef einnig verið duglegri en stundum áður við að fara út að ganga sem er ákaflega gott fyrir sál og líkama. Það er mjög gaman að sjá þessa dagana sífellt fleiri merki um það að vorið og sumarið eru að taka við af þessum á margan hátt erfiða vetri sem er nú vonandi að baki.
Einhver skilaboð til fólks eða ábendingar fyrir páskahelgina? -Hlýðum Víði, þvoum okkur vel um hendur, höldum okkur heima, virðum fjarlægðarmörk og sýnum almenna skynsemi um leið og við reynum að njóta páskanna.
Feykir þakkar Sigfúsi Inga fyrir að gefa sér tíma í páskafríinu til að svara spurningunum og fræða lesendur Feykis um ástand mála.