Vestur-Húnvetnskur vinkill á laginu Ekkó

Síðari umferð Söngvakeppninnar 2020 fer fram í kvöld en þá keppa fimm lög um tvö síðustu sætin á úrslitakvöldin og mögulega fer eitt aukalag áfram. Feykir hefur ekki frétt af miklum tengingum flytjenda laganna við Norðurland vestra að þessu sinni og þó – Nína Dagbjört Helgadóttir er barnabarn Stefáns heitins Jónssonar sem fæddist á Neðri-Svertingsstöðum í Miðfirði í Vestur Húnavatnssýslu.

Söngkonan Rúna Stefáns er móðir Nínu og munu þær syngja saman lagið Ekkó eftir Þórhall Halldórsson og Sönnu Martinez en Þórhallur samdi íslenska textann ásamt Einari Bárðarsyni. Rúna verður reyndar í bakraddasveitinni og fékk hlutverk þar fyrir tilviljun en ein bakraddasöngkvennanna verður ekki á landinu þegar undankeppnin fer fram og hleypur Rúna því í skarðið. 

Feykir setti sig í samband við Króksarann og Evróvisjón reynsluboltann Kristján Gíslason sem hefur oftar en ekki prýtt svið Söngvakeppninnar. Hann fór sællar minningar út með Birtu (eða Angel) Einars Bárðarsonar um árið og nokkur skipti sem bakrödd. Stjáni tjáði Feyki að hann hefði nú líkt og síðustu ár sagt nei við beiðnum um að taka að sér bakraddasöng – en honum bauðst að taka þátt í tveimur atriðum. 

Söngvakeppnin hefst um átta leytið í kvöld og úrslitakeppnin fer síðan fram að hálfum mánuði liðnum. Sigurvegarinn mætir síðan rogginn til Rotterdams í Hollandi í maí og meikar það vonandi. Áfram Ísland!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir