VG í Skagafirði vilja efla strandveiðar

Mynd af FB-síðu VG í Skagafirði.
Mynd af FB-síðu VG í Skagafirði.

Á félagsfundi Vinstri grænna í Skagafirði sem haldinn var í gær voru þingmenn og ráðherrar hreyfingarinnar hvattir til áframhaldandi góðra verka og til þess að standa vörð um strandveiðarnar sem komið var á í sjávarútvegsráðherratíð Jóns Bjarnasonar og efla þær enn frekar með aukinni hlutdeild í veiðiheimildum. Mikilvægur liður í því, segir á Facebook-síðu VG, er að strandveiðar verði heimilaðar í 48 daga, 12 daga í hverjum mánuði maí – ágúst og öllum veiðisvæðunum verði tryggðir 12 dagar.

Fundurinn minnti jafnframt á það sem segir í sjávarútvegsstefnu VG: „Standa þarf vörð um hagsmuni minni sjávarbyggða, smábáta og minni útgerða og möguleika til nýliðunar sem aftur varðveiti fjölbreytni og endurspegli heildstæða nálgun hreyfingarinnar á málefni greinarinnar. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafði frumkvæði að tilkomu strandveiða árið 2009 og tilurð verkefnisins „brothættar byggðir“ og byggðafestukvóta (sértæks byggðakvóta) árið 2012.

Að því ber að stefna að aflaheimildir í 5,3% kerfinu verði auknar í hóflegum áföngum með það sem endamarkmið að 8-10% veiðiheimilda verði til ráðstöfunar í slíkum tilgangi. Festa þarf strandveiðar enn betur í sessi og auka svigrúm til félags- og byggðaráðstafana. Skoða á kosti þess að hægt verði að leigja veiðiheimildir af hinu opinbera í tilteknu magni á föstu verði og eftir atvikum á svæðagrundvelli,“ segir í færslu VG.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir