Við gefum líf – afar vel heppnaðir kynningarfundir á Norðurlandi

Embætti landlæknis efnir til funda með starfsfólki í heilbrigðisþjónustu um allt land í tilefni af breyttum lögum um líffæragjafir, sem taka gildi núna um áramótin. Landsmenn verða sjálfkrafa gefendur líffæra með nýju ári en samkvæmt þeim lögum sem falla úr gildi á gamlársdag þarf að taka upplýsta ákvörðun um að gefa líffæri.
Þeir sem vilja af einhverjum ástæðum ekki vera sjálfkrafa líffæragjafar eftir lagabreytinguna geta skráð afstöðu sína á heilsuvera.is („mínar síður“). Heimilislæknar aðstoða þá sem ekki nota tölvu eða stunda tölvusamskipti. Nánari upplýsingar um líffæragjöf má finna á vef Embættis landlæknis undir https://www.landlaeknir.is/lif
Á heimasíðu landlæknis segir að Jórlaug Heimisdóttir, verkefnisstjóri hjá landlækni, hafi hitt starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Sauðárkróki 16. nóvember á fundi sem tókst afar vel og hafi verið gagnlegt upphaf kynningar málsins. Í gær var svo kynningarfundur á Sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem Alma D. Möller landlæknir, Runólfur Pálsson, læknir á Landspítala, og Kristinn Sigvaldason, yfirlæknir á gjörgæslu Landspítala í Fossvogi, fjölluðu um lagabreytinguna og um líffæragjöf og líffæraígræðslu frá ýmsum hliðum og í sögulegu samhengi. Á báðum stöðum var kynnt nýtt merki og útlit fyrir verkefnið, Við gefum líf, sem Þórhildur Jónsdóttir, myndlistarmaður og grafískur hönnuður hannaði.
Árlega þarfnast 25-30 sjúklingar líffæraígræðslu á Íslandi og þeim fjölgar en líffærin eru flutt frá Íslandi til Svíþjóðar og grædd í sjúklinga á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg. Algengt er að ígrædd nýru komi frá lifandi gjöfum, oftast nánum ættingjum sjúklinga. Nýrnaaðgerðir eiga sér líka stað á Landspítala.
Alls hafa um hundrað manns á Íslandi gefið líffæri frá upphafi og því hafa vel yfir 350 manns notið góðs af þessum gjöfum lífsins því líffæri eins gjafa geta komið allt að sex manns til góða.
Bæði á Sauðárkróki og Akureyri var spurt um hvort aldur líffæragjafa skipti ekki máli. Svarið er að svo er bara alls ekki. Yngsti líffæragjafinn á Íslandi var nokkurra mánaða gamalt barn en sá elsti 85 ára Allir geta þannig gefið líf.
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.