Viðamesta framkvæmdin til fjölda ára
Ný stofnlögn var lögð frá dælustöð á Borgarmýrum að Sauðárkróksbraut á Sauðárkróki dagana 13. og 14. júní sl. Að sögn Indriða Þórs Einarssonar, sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs Svf. Skagafjarðar, var um að ræða viðamestu framkvæmd í hitaveitu á Sauðárkróki til fjölda ára. Hin nýja stofnlögn flytur um 13% meira magn en gamla lögnin og er þar að auki einangruð ólíkt gömlu lögninni.
Indriði segir framkvæmdin við tengingu lagnarinnar hafa gengið mjög vel en lokað var fyrir vatnið samkvæmt áætlun, kl. 22 föstudagskvöldið 13. júní, og byrjað að hleypa aftur á nýja lögn um kl. 09 morguninn eftir. Vatn komst hinsvegar ekki á allan bæinn fyrr en mun seinna vegna mikils lofts í stofnlögnum sem vill verða þegar svona stendur á.
„Þegar heita vatnið er tekið af lögnum í þetta langan tíma er það óhjákvæmilegt að bilanir munu koma upp. Vatnið kólnar í lögnunum og hitnar svo aftur þegar hleypt er á, þetta veldur þenslu á lögnum og í sumum tilfellum þola gamlar lagnir illa þessa þenslu og þá koma fram bilanir eins og gerðist í kjölfarið á þessari lokun. Segja má að veiku punktarnir í kerfinu komi fram við framkvæmd sem þessa. Við gerðum ráð fyrir því að einhverjar bilanir myndu koma fram en þær voru þó heldur fleiri en við gerðum ráð fyrir,“ segir Indriði.
Indriði segir engar álíka framkvæmdir í burðarliðnum eins og er enda er hér um að ræða viðamestu framkvæmd í hitaveitu á Sauðárkróki til fjölda ára.
„Nýja stofnlögnin flytur um 13% meira magn en gamla lögnin og er þar að auki einangruð ólíkt gömlu lögninni. Það er því möguleiki að íbúar neðri bæjarins á Sauðárkróki finni fyrir örlítilli breytingu á þrýstingi og hitastigi en það á þó aðeins við þá allra næmustu,“ segir hann að lokum.