Viðbjóðslegt drasl á meðal flokkaðs rusls

Ýmislegt góðgæti sem ekki á heima í flokkaða ruslinu. Mynd: Flokka.
Ýmislegt góðgæti sem ekki á heima í flokkaða ruslinu. Mynd: Flokka.

Starfsfólk Flokku á Sauðárkróki hafa brugðið á það ráð að sleppa því að losa grænar tunnur sem ekki er flokkað nægilega vel í og stendur til að herða það enn frekar. Verða þá engar óflokkaðar grænar tunnur losaðar. Á Fésbókarsíðu fyrirtækisins voru birtar myndir í morgun sem sýna vægast sagt dapurlegar myndir af rusli sem ætti að vera flokkað og hreint en þvælist fyrir þeim sem handflokka allt efnið í fimm flokka.

„Tökum nú höndum saman og gerum þetta eins og fólk svona á nýju ári, minnum félagana á og setjum ruslið í réttar tunnur svo má endilega deila síðunni svo að sem flestir geti séð!

Við tökum hress á móti öllum sem koma, alltaf tilbúin að hjálpa og fræða, svo er ekkert mál að smella mynd og senda inn spurningu hér á síðunni ef fólk er í vafa,“ segir í færslu sem fylgdi myndunum sem teknar voru á fjögurra klukkutíma tímabili. Myndunum var póstað til að fólk gæti fengið smjörþefinn af því hvernig sumir flokka í bænum og hvað sé að skila sér upp á færiband til starfsmanna.

„Meðan þið rennið í gegnum myndirnar getið þið haft spurninguna „myndi ég vilja þurfa að handfjatla þetta“ í huganum. Bæði eru þarna myndir sem sýna viðurstyggilega skítugt efni í pokum og hins vegar blandað efni í pokum sem er alls ekki „að flokka“,“ segir í færsunni.

þar er einnig reynt að leiðrétta þann misskilning sem einhverra hluta vegna fer alltaf af stað í bænum, að allt fari í sama skurðinn, en svo er ekki því í Flokku er verið að flokka.

„Við erum að senda til endurvinnslu. En til þess að það sé hægt verðum við, fólkið í sveitarfélaginu að gera þetta samviskusamlega, skola plast, fernur, áldósir. Ef það er ekki hreint, smitar það út frá sér og getur eyðilagt fyrir þeim sem eru að leggja sig fram við að gera þetta vel, fyrir utan að óhreint efni er ekki hægt að senda til endurvinnslu.“

Meðal þess sem kom upp á flokkunarfæribandið í gær, sem ekki voru teknar myndir af er rafgeymir, notaðar bleyjur, notaður kattasandur, fullir pokar af kertaafgöngum, óopnaðar niðursuðudósir, grenigreinar og blómvendir - ekki í sínu besta ástandi. Þetta er þó nokkuð og er listinn ekki tæmandi.

„Það sem þið setjið í grænu flokkunartunnurnar er sturtað inn í hús hjá okkur þar sem við handflokkum svo allt efnið í 5 flokka:
- Bylgjupappi
- Blöð/tímarit
- Umbúðaplast
- Fernur
- Ál

„Það eru einungis þessir fimm flokkar sem eiga heima í grænu tunnunni. Ég endurtek, bara þessir fimm,“ er ítrekað í færslunni og minnt á opnunartíma helgarinnar sem er milli klukkan  11:00-15:00 á morgun og 16:00-18:00 á sunnudag.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir