Vídeólist á Kleifum fær Menningarverðlaun DV

Kleifar við Blönduós. Mynd:FE
Kleifar við Blönduós. Mynd:FE

Menningarverðlaunum DV fyrir árið 2017 var úthlutað á föstudaginn var. Meðal verðlaunahafa voru þau Finnur Arnar Arnarson og Áslaug Thorlacius sem hlutu verðlaunin í flokki myndlistar fyrir frumlega uppsetningu á vídeóverkum í gömlu fjárhúsunum á bænum Kleifum við Blönduós sumarið 2017.

Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Frjálsrar fjölmiðlunar við Suðurlandsbraut. Þau hafa verið veitt árlega frá árinu 1979 fyrir framúrskarandi árangur á menningarsviðinu. Veitt voru verðlaun í sjö flokkum; leiklist, tónlist, kvikmyndum, myndlist, bókmenntum, fræðiritum og stafrænni miðlun auk sérstakra heiðursverðlauna.

Þeir listamenn sem áttu verk á sýningunni á Kleifum voru Olga Bergmann, Anna Hallin, Dodda Maggý, Ragnar Kjartansson og Egill Sæbjörnsson. Um var að ræða fjögur vídeóverk sem sýnd voru hvert í sinni kró fjárhúsanna. Hjónin endurtóku svo leikinn í sumar þegar listsýningin Inniljós var opnuð í útihúsunum. DV segir að þau hjónin hafi hugsað sér að halda áfram að glæða menningarlífið í sveitinni.

Nánar um Menningarverðlaun DV hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir