Víðidalstungurétt um helgina
Stóðréttir verða í Víðidalstungurétt á morgun, laugardaginn 6. október, en fjörið sem réttunum fylgir hefst í dag. Á Facebooksíðunni Stóðréttir Víðidalstungurétt segir að stóðinu verði hleypt í gegnum hliðið við Bergárbrú í fyrsta lagi kl. 14:00. Hægt verður að kaupa sér hressingu í skemmunni á Kolugili milli kl. 14:00 og 17:00 og frá kl. 17:00 fæst kjötsúpa í réttarskúr kvenfélagsins Freyju við Víðidalstungurétt.
Í kvöld verður svo Mjólkurhúsið, en það er bar í fjósinu á Stóru-Ásgeirsá, opinn og bóndinn á bænum spilar þar fram á nótt. Á Gauksmýri verður stóðréttapartý í reiðskemmunni en þar opnar húsið kl. 22:00. Þar mun tónlistarbóndinn Skúli Einarsson á Tannstaðarbakka halda uppi fjörinu með lifandi tónlist frá því upp úr kl. 23:00.
Stóðið verður svo rekið til réttar klukkan 11:00 á laugardagsmorgun. Kvenfélagið verður með kaffisölu á staðnum og fylgir happdrættismiði frá Hrossaræktarfélagi Þorkelshólshrepps með keyptum veitingum þar sem fyrsti vinningur er folatollur undir Eld frá Bjarghúsum. Eftir réttina verður svo grillhlaðborð á Gauksmýri og opið hús í Mjólkurhúsinu á Stóru-Ásgeirsá fram eftir kvöldi en klukkan 23:00 hefst stóðréttardansleikur í Víðihlíð þar sem hljómsveitin Kopar ætlar að sjá um fjörið
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.