Vilja að allir nemar fái frítt í strætó
Byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar skora í ályktun ráðsins á stjórn Strætó bs. að veita framhalds-og háskólanemum, sem stunda nám á höfuðborgarsvæðinu og eiga lögheimili utan starfssvæðis Strætó bs., sömu kjör og nemendum sem eiga lögheimili innan starfssvæðisins.
Í ályktun ráðsins segir jafnframt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi umtalsverðar tekjur af framhalds- og háskólanemum af landsbyggðinni enda eigi þeir oft engan annan kost en að sækja til höfuðborgarsvæðisins í nám. Á þeim forsendum vill byggðaráð meina að það sé sanngirnismál að nemendum utan að landi sé ekki mismunað í gjaldtöku hjá Strætó bs.
Jafnframt samþykkti byggðarráð að fela starfsmönnum sveitarfélagsins að afla upplýsinga um fjölda nemenda í framhalds- og háskólum á höfuðborgarsvæðinu sem hafi lögheimili í Sveitarfélaginu Skagafirði.