Vilja hluta fjár til bundinna slitlaga í Skagafjörð
Á fundi Umhverfis og samgöngunefndar Skagafjarðar í vikunni lagði nefndin ríka áherslu á bættar vegasamgöngur í sveitarfélaginu. Segir í bókun nefndarinnar að sveitarfélagið sé víðfeðmt og er atvinnusókn og öll þjónusta því verulega háð greiðum vegasamgöngum.
Bókun ráðsins er eftirfarandi; „Umhverfis- og samgöngunefnd Sveitarfélagsins Skagafjörður leggur ríka áherslu á bættar vegasamgöngur í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið er víðfeðmt og er atvinnusókn og öll þjónusta því verulega háð greiðum vegasamgöngum. Nefndin leggur því til við stjórnvöld að hraðað verði lögn bundinna slitlaga á helstu tengivegi í sveitarfélaginu. Í Vegáætlun til næstu tveggja ára er gert ráð fyrir óskiptri fjárveitingu til nýrra bundinna slitlaga í Norðvesturkjördæmi. Umhverfis- og samgöngunefnd leggur mikla áherslu á að hluta þessara fjármuna verði varið til áframhaldandi uppbyggingar á Skagafjarðarvegi (752), með lengingu bundins slitlags til framsveita sveitarfélagsins. Hönnun endurbóta á Skagafjarðarvegi liggur fullbúin hjá Vegagerðinni og er verkefnið tilbúið til útboðs, enda var fjárveiting til verkefnisins á samgönguáætlun 2008-2012 sem áður var í gildi. Nefndin telur því rökrétt að framkvæmdir við Skagafjarðarveg verði í forgangi við úthlutun þess fjár, sem áður er getið til bundinna slitlaga í kjördæminu."
Framangreindri bókun vísað til byggðarráðs.