Vilja semja um kaup á bráðabirgðahúsnæði
Á fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem haldinn var þann 21. júlí sl. var fjallað um bráðabirgðahúsnæði til að varðveita muni Byggðasafns Skagfirðinga. Auglýst var eftir húsnæði í apríl og bárust þrjú svör. Eftir skoðun á þeim kostum þykir nefndinni ljóst að enginn þeirra henti þörfum safnsins án verulegs tilkostnaðar og mælir því ekki með neinum þeirra. Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd þakkar þeim sem svöruðu auglýsingunni og veittu aðstoð við skoðun á húsnæði sínu.
Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd hefur skoðað kosti iðnaðarhúsnæðis sem fyrirhugað er að byggja við Borgarflöt 17-19 á Sauðárkróki og telur það besta kostinn sem bráðabirgðarhúsnæði fyrir muni safnsins uns fullbúið varðveisluhúsnæði verður tekið í notkun. Nefndin mælir með því við byggðarráð að gengið verði til samninga um kaup á fullnægjandi rými að Borgarflöt 17-19.
Byggðarráð tók málið fyrir á fundi sínum í gær og samþykkti að ganga til samninga um kaup á rými að Borgarflöt 17-19, tekið af framkvæmdafé eignasjóðs. Byggðarráð felur sveitarstjóra að ganga frá kaupsamningi þar um.