Vilja uppbyggingu í Blönduskóla

Fræðslunefnd Blönduósbæjar krefst úrbóta í smíðakennslu við Blönduskóla. Leggur nefndin til að unnin verði 3-5 ára áætlun um uppbyggingu skólahúsnæðis með tilliti til þeirrar aðstöðu sem vantar í skólann og þarf að bæta.

Um er að ræða aðstöðu til smíðakennslu og heimilisfræði, auk þess sem koma þyrfti upp betri aðstöðu fyrir textílmennt og myndmennt. Í fundargerð nefndarinnar er bent á að rétt væri að skoða samhliða frekari viðbætur við eldhús m.t.t. að þar yrði rekið fullbúið mötuneyti og stækkun skóladagheimili.

Samhliða þessari áætlun krefst fræðslunefnd þess að komið verði upp kennsluaðstöðu í smíðum til bráðabirgða svo hægt verði að kenna smíðar meðan á uppbyggingu fyrrgreindar aðstöðu stendur.

Minnt er á það í bókun að Blönduósbær hafi nú þegar fengið áminningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna skorts á smíðakennslu en á síðasta ári var úrbótum lofað sem ekki hefur enn verið staðið við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir