Vill alþjóðlegan flugvöll á Sauðárkrók
Byggja þyrfti upp fimmta alþjóðlega flugvöllinn á Íslandi til að draga úr notkun flugvallarins í Glasgow sem varaflugvallar og telur formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna Alexandersflugvöll á Sauðárkróki koma þá helst til greina.
Alþjóðlegir varaflugvellir á Íslandi eru fjórir, Keflavík, Reykjavík, Akureyri og Egilsstaðir en flugvöllurinn í Glasgow er notaður sem varaflugvöllur þegar ekki er hægt að lenda á Íslandi vegna veðurs.
Hafsteinn Pálsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), segir í samtali við Rúv.is að það gerist ekki oft að flugvélar þurfi að fara til Glasgow. Völlurinn sé þó varaflugvöllur á pappírunum og því þurfi að setja nægilegt eldsneyti á vélarnar svo að þær komist þangað. Það geti þýtt að flugvélar þurfi að skilja eftir frakt til að geta tekið eldneyti í staðinn í einhverjum tilvikum. Jafnframt segir Hafsteinn að því meira eldsneyti sem vélarnar beri, kosti það yfirleitt um 10% aukalega, og sá kostnaður segir Hafsteinn að hljóti að skila sér í hærra miðaverði.
Hafsteinn lenti sjálfur í því nýlega að þurfa að skilja eftir frakt til að rýma fyrir eldsneyti. „Ég var að koma heim frá New York að morgni Þorláksmessu. Það var það mikið að flytja að við urðum að skilja eftir frakt til að geta sett eldsneyti og notað Glasgow sem varaflugvöll. Við hefðum getað tekið allt með ef við hefðum verið með opinn varaflugvöll á Íslandi,“ segir hann í samtali við Rúv.is. Hafsteinn segir að Icelandair skilji ekki eftir farþega og farangur, heldur sé um að ræða frakt eða póst. Aðrir flugrekendur sem fljúga til og frá Norður-Ameríku hafi þó lent í því að þurfa að skilja eftir farangur.
Telur Alexandersflugvöll vera besti kosturinn
Hafsteinn segir nauðsynlegt að byggja upp fimmta alþjóðlega flugvöllinn á Íslandi og segir Alexandersflugvöll á Sauðárkróki koma helst til greina. Þá hefur snjókoma og vont veður á Akureyri og Egilsstöðum hafi komið í veg fyrir að hægt væri að nota þá staði sem varaflugvelli.
Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair hefur Glasgow verið skráður varaflugvöllur á pappírunum í 2,5 prósentum tilvika undanfarin þrjú ár, í flugi til Keflavíkur. Í reynd hafa flugvélar frá Icelandair lent fjórum sinnum í Glasgow á síðustu þremur árum, einu sinni árið 2011, einu sinni 2012 og tvisvar sinnum 2013.
