Vill stækka Hótel Blönduós
Síðastliðinn mánudag kynntu Lárus B. Jónsson og Helgi Marino áform um stækkun Hótels Blönduós fyrir byggðarráði bæjarins. Áformað er að byggja 400 fermetra hús vestan við hótelið. Um er að ræða sjálfstæða byggingu á einni hæði sem yrði hluti af hótelinu.
Gert er ráð fyrir átján gistiherbergjum í húsinu og yrðu þau öll á jarðhæð, sem hentar hreyfihömluðum, en öll sextán herbergin á Hótel Blönduósi eru á annarri hæð og engin lyfta er í húsinu. Gangi þetta eftir gæti hótelið boðið upp á 34 gistiherbergi. Núverandi móttaka, eldhús og 170 manna salur hótelsins yrði nýtt fyrir bæði húsin.
Haft er eftir Lárusi á Húna.is að stækkun hótelsins sé grundvallaratriði fyrir rekstur þess og að störfum á Blönduósi gæti fjölgað um 12 til 15 manns yfir helstu ferðamannamánuðina.
